Vann við flóttamannaaðstoð

Birgir er oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi.
Birgir er oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

„Ég þekki Sigmund og hans góðu verk. Það var bara auðvelt að fylgja honum,“ segir Birgir Þórarinsson, nýkjörinn þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Flokkurinn hlaut 14,3% atkvæða í kjördæminu og segja má að Birgir hafi verið öruggur inni frá fyrstu tölum.

Birgir er guðfræðingur að mennt og með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum. Hann hefur undanfarið starfað fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Mið-Austurlöndum, fyrir stofnun sem heitir UNRWA, eða Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, og þjónar palestínskum flóttamönnum í fimm löndum. Birgir er ekki alveg ókunnugur þingstörfum því hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi 2010 og 2012, samkvæmt vef Alþingis. „Ég tók tvisvar sæti, svo ég hef aðeins kynnst þingstörfunum,“ segir hann.

Brúin milli hægri og vinstri

Birgir, sem býr á Vatnsleysuströnd, segir að niðurstaða Miðflokksins í kosningunum hafi verið framar vonum. „Ég þakka það þessu frábæra fólki sem var að vinna með okkur að þessu. Það var öflugt fólk á framboðslistanum og kosningastjórnin var mjög öflug,“ segir hann.

Hann segist hafa notið þess að ferðast um kjördæmið og hitta fólk í aðdraganda kosninganna, enda hafi veganestið – góð málefni á stefnuskrá flokksins – verið afar gott. Þar nefnir hann helst endurskipulagningu á fjármálakerfinu, lækkun vaxta og áætlanir um afnám verðtryggingarinnar.

Miðflokkurinn stendur mitt á milli hægri og vinstri, eins og nafnið gefur til kynna. Hann segist líta á flokkinn sem brúna á milli hægri og vinstri og vill ekki segja til um með hvorum vængnum hann myndi frekar vilja vinna í ríkisstjórn. Málefnin ráði því.

Fólki sé hjálpað nær heimahögum

Birgi er umhugað um málefni flóttamanna og alþjóðasamskipti yfir höfuð; sérstaklega hagsmunagæslu ríkja á alþjóðavettvangi. Þar sem hann hefur unnið við flóttamannaaðstoð á vegum Sameinuðu þjóðanna er Birgir þeirrar skoðunar að farsælast sé að hjálpa fólki sem næst sínum heimahögum. Alþjóðaflóttamannastofnunin hafi enda sýnt fram á að 82% sýrlenskra flóttamanna vilji snúa aftur til síns heima. „Fyrir hvern einn flóttamann sem við hjálpum hér, getum við aðstoðað 12 flóttamenn úti,“ segir hann.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi víða unnið gott starf í flóttamannabúðum, þar sem heilsugæsla, skólar og jafnvel félagslegt kerfi, sé sett upp á undraverðum hraða. Hann tekur þó fram að hann sé að sjálfsögðu hlynntur því að Ísland taki á móti kvótaflóttamönnum. „En ef hægt er að hjálpa þessu fólki á þessum svæðum, þá er til mikils að vinna í þeim efnum.“

Hann segir aðspurður að ekki hafi verið boðað til þingflokksfundar Miðflokksins í kvöld en  hann geri ráð fyrir að hópurinn hittist á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert