„Það er eitt sem kosningar snúast fyrst og fremst um og það er að fá fylgi og við fengum mest fylgi,“ sagði Bjarni Benediktsson í ræðu sinni á kosningafundi sjálfstæðismanna á Grand Hótel og uppskar mikið lófaklapp fyrir.
„Þetta hefur ekki alltaf verið auðveld barátta. Þetta var frá fyrsta degi alveg hörkubarátta,“ sagði hann og bætti við að sjálfstæðismenn fyndu það núna að baráttan hefði verið þess virði.
„Það sem skilaði árangri fyrir okkur var samstaðan. Við stóðum saman öll sem eitt. Við börðumst fyrir því að stefnan okkar fengi hljómgrunn um allt land,“ sagði Bjarni.
„Við fengum góðan hljómgrunn, kæru vinir. Við erum að vinna þessar kosningar.“
„Það á eftir að telja mikið af atkvæðum en ánægjan sem fylgir okkur við fyrstu tölur er gríðarleg. Við vonumst til þess að við fáum fleiri þingmenn inn eftir því sem líður á kvöldið.“
Bjarni sagði að framhaldið yrði ekki einfalt. „Framhaldið mun alfarið ráðast af því að við Íslendingar stöndum saman til þess að ná enn betri árangri til að gera frábært land ennþá betra,“ sagði hann.
„Í þessu landi býr kraftaverkaþjóð. Við getum náð ótrúlegum árangri ef við bara berum gæfu til þess að starfa saman, vinna öll saman í þágu lands og þjóðar.“