Guðmundur Andri Thorsson, nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, var staddur í rútu í Helsinki þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum í morgun. „Það er hérna Norðurlandaráðsþing og ég er hérna vegna þess að bók eftir mig var tilnefnd til Norðurlandaráðsverðlauna og það verður tilkynnt núna á næstu dögum hver fær þau. Þannig að ég er alveg bara kominn út úr pólitíkinni á Íslandi og man ekki neitt um hana og veit ekki neitt í minn haus,“ sagði hann hress í bragði og tók undir að það væru líklega ekki góðar fréttir fyrir íslensku þjóðina.
Það er bók hans Og svo tjöllum við okkur í rallið – Bókin um Thor sem tilnefnd er til bókmenntaverðlaunanna fyrir hönd Íslands, en Guðmundur Andri er útskrifaður íslensku- og bókmenntafræðingur frá Háskóla Íslands. „Ég hef unnið við það alla tíð í einhverri mynd, unnið við ritstörf, yfirlestur og fyrir bókaforlög. Svo hef ég alltaf skrifað meðfram því bæði bækur og pistla mjög reglulega.“
Aðspurður segist hann raunar hafa verið kallaður til inn í landsmálapólitíkina. „Það hefur aldrei verið neitt leyndarmál að ég hef alltaf stutt Samfylkinguna alveg frá því áður en hún var stofnuð. Ég hef alltaf verið mjög pólitískur og verið á þessum vinstrikanti. Ég var lengi hálf landlaus þannig að ég var mjög glaður þegar Samfylkingin var stofnuð. Ég sá í henni tækifæri til þess að vinstrimenn gætu sameinast um grundvallarmálin í staðinn fyrir að vera í sérfylkingum um ágreiningsefnin. Það rættist nú ekki alveg en það er samt draumurinn um Samfylkinguna og þess vegna styð ég hana og finnst að þarna eigi allir jafnaðarmenn að geta fundið sér sitt heimili hvað sem þeim finnst um einstaka útfærslur á einstaka málum.“
Hvernig þingmaður verður Guðmundur Andri?
„Ég bara hef ekki hugmynd um það. Ég á eftir að fara í starfskynningu. Ég verð ekki einn af þessum sem eru alltaf að rífast. Ég er ekki góður í því að rífast. Ég held að ég gæti kannski orðið duglegur í einhverjum nefndarstörfum, mig langar til þess. Að öðru leyti þá á ég eftir að átta mig á þessu.“
Hann kveðst aðallega ætla að beita sér í mennta-, menningar- og umhverfismálum. „Ég vil að það verði miklu meira samráð við náttúruverndarsamtök, að rammaáætlun verði leyst og landið nýtt í sátt við náttúruna. Svo hef ég líka áhuga á öllu sem við kemur lestri af því það er náttúrlega þaðan sem ég kem og ég vil endilega hjálpa til við að efla bókmenntalífið og listir almennt, það finnst mér mjög mikilvægt. Ég ætla að hjálpa fegurðinni að fá að hafa framgang, bæði fegurð mannlífs og náttúru.“
„Það getur vel verið. Ég sit ekki á þingflokksfundum og nótera hjá mér eitthvað í bók en það getur vel verið að þetta umhverfi verið manni innblástur í eitthvað,“ segir Guðmundur Andri þegar hann er spurður hvort hann ætli sér að skrifa bók um þingstörfin. „Það er aldrei að vita.“