Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, telur að forseti Íslands muni veita formanni stærsta stjórnmálaflokksins umboð til stjórnarmyndunarviðræða nema aðrir flokkar geti sýnt fram á annað.
„Venjan er sú að formaður stærsta flokksins fái umboðið fyrst en ef viðtölin í dag hafa sýnt honum [forseta Íslands] fram á að einhverjir aðrir séu búnir að sýna fram á að þeir geti myndað meirihluta og ætli sér að reyna það þá hlýtur hann að veita þeim umboðið fyrst,” segir Grétar Þór, spurður út í stöðu mála í stjórnmálunum eftir viðburði dagsins.
Formenn allra flokkanna sem komust á þing ræddu við forseta Íslands á Bessastöðum í dag og komu þeir að vonum mismunandi skilaboðum á framfæri við forsetann.
Grétar Þór kveðst ekki hafa séð það beint eftir daginn að einhver flokkur hafi sýnt fram á að hann geti myndað meirihluta og því gæti umboðið endað hjá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni hefur óskað eftir því að fá svigrúm til að ræða við aðra flokka og segir Grétar Þór mjög eðlilegt að formennirnir fái einn til tvo daga til að tala sig betur saman. Eftir það gætu þeir mögulega komið aftur til forsetans og sannfært hann um að eitthvert mynstur sé í spilunum.
Að öðrum kosti muni forsetinn veita Bjarna, sem formanni stærsta flokksins, umboðið. Ef það myndi ekki ganga upp gæti formaður sigurvegara kosninganna tekið við umboðinu, segir Grétar Þór, og á við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins.
„En auðvitað verðum við að bíða og sjá hvernig spilin leggjast í kvöld og á morgun.”
Sigmundur Davíð talaði í dag um bandalag með Flokki fólksins. Grétar Þór segir að Sigmundur sé líklega að reyna að styrkja stöðu sína í stjórnarmyndunarviðræðunum með því að búa til bandalag og stækka mengið. „Þá er þetta orðið jafnstórt og VG og þá er hann kominn framar í goggunarröðina.” Spurður hvort að þetta sé klókt af honum segir Grétar Þór þetta vera aðferð sem kannski eðlilegt sé að stjórnmálaforingjar reyni að nota til að skapa sér betri stöðu.
Grétar Þór telur að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, haldi báðum leiðum opnum til vinstri og hægri og tali fyrir stjórn yfir miðjuna. „Ég myndi segja að hann væri örlagavaldurinn í því sem er að fara að gerast.”
Geta Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð unnið saman?
„Ég þekki ekki til innanbúðar en það er ekki til þess fallið að auka líkurnar á því að Sigmundur henti handsprengju inn hjá Framsóknarflokknum á kosninganótt. Það liggur við að það hafi jafngilt stríðsyfirlýsingu,” segir hann og á við ummæli Sigmundar Davíðs um að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sé bandamaður Miðflokksins.
Grétar Þór kveðst eiga erfitt með að spá fyrir um hvers konar stjórn verður mynduð en telur hugsanlegt að hún nái yfir miðjuna á einhvern hátt. Hún gæti verið til þess fallin að skapa frið. Einnig telur hann að sú ríkisstjórn sem ætlar ekkert að gera varðandi breytingar á stjórnarskránni muni ekki fá mikinn starfsfrið.
Hann bætir við að ummæli margra um að vilja ekki mynda stjórn með naumum meirihluta vegna þess að síðasta stjórn sem var með naumum meirihluta hafi sprungið, séu áhugaverð. Í rauninni hafi heill flokkur gengið út úr síðustu stjórn en ekki einn maður. „Þó að þessi stjórn sem sprakk hafi verið með 35 menn hefði hún samt fallið. Það var Björt framtíð í heilu lagi með fjóra þingmenn sem gekk út. Þetta er ekki alveg svona einfalt að þetta snúist bara um eins eða tveggja manna meirihluta. Stjórnarmyndunin verður að byggjast á trausti allra flokkanna sem að henni standa.”