Í bandalag með Flokki fólksins

Sigmundur Davíð sagði að bandalag Miðflokksins og Flokks fólksins væri …
Sigmundur Davíð sagði að bandalag Miðflokksins og Flokks fólksins væri bandalag um málefni. mbl.is/​Hari

Bandalag Flokks fólksins og Miðflokksins yrði bandalag byggt á málefnum. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Bessastöðum að afloknum fundi við forseta Íslands. Hann sagði að raunar væri um samvinnu, frekar en bandalag að ræða.

Athygli vakti að Inga Sæland var í aftursæti bifreiðar Sigmundar Davíðs, þegar hann kom á fundinn.

Sigmundur sagði að flokkarnir tveir hefðu rætt saman um sameiginlegar áherslur þeirra og að þeir væru sammála um mikilvægustu málin; endurskipulagningu fjármálakerfisins og kjör aldraðra og öryrkja. Hann sagði þó að formlegt bandalag væri ekki komið á milli flokkanna.

Spurður hvers vegna Inga hefði komið með honum að Bessastöðum svaraði Sigmundur: „Við vorum að koma af leynifundi og það gafst ekki tími til að skutla henni heim áður. Ekki vill maður vera of seinn á fund forsetans.“ Hann sagði að flokkarnir tveir væru samstiga að mörgu leyti og að samkomulag væri þeirra á milli um að standa saman að því að koma þeim málum sem þau setja á oddinn á framfæri í stjórnarmyndunarviðræðum.

Sigmundur lýsti því yfir við forsetann að hann treysti sér til að vinna úr þeim stöðum sem upp gætu komið, hvort sem stærsti flokkurinn fengi stjórnarmyndunarumboðið eða sá flokkur sem unnið hefði stærsta sigurinn. „Ég myndi byrja á að ræða við fulltrúa allra flokka, eins og ég gerði síðast. Það eru nokkur mál sem ég teldi mjög mikilvægt að yrðu kláruð, eins og ég ræddi við Ingu fyrir fundinn.“

Sigmundur Davíð sagðist engan útiloka fyrirfram, þegar kæmi að stjórnarmyndunarviðræðum. „Maður verður að vera tilbúinn að vinna með alls konar fólki.“ Hann sagðist meta stöðu sína sterka, út frá niðurstöðum kosninganna.

Á kosninganótt skaut Sigmundur Davíð á Framsóknarflokkinn og talaði um Lilju Alfreðsdóttur sem bandamann sinn, þó að hún væri varaformaður Framsóknarflokksins. Hann sagði aðspurður að flokkarnir tveir gætu unnið saman ef litið væri til málefna þeirra. Hann lét ekki hjá líða að skjóta frekar á fyrrverandi flokksfélaga sína. „Það er mjög ánægjulegt að sjá flokkinn einbeita sér að málum sem voru ofarlega á baugi þegar ég var í forystu flokksins.“ Það hlyti að skapa einhvern grundvöll sem hægt væri að vinna úr. „Hvað Lilju Alfreðsdóttur varðar þá fannst mér ekki annað hægt en að hrósa henni eftir þá viðbót sem flokkurinn náði á allra síðustu dögunum með því að leggja ofuráherslu á að auglýsa hana. Hún verður að fá að eiga það sem hún á,“ sagði Sigmundur Davíð.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, fulltrúi Pírata, situr nú á fundi með Guðna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Bessastöðum. Hann skaut aftur á Framsóknarflokkinn.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Bessastöðum. Hann skaut aftur á Framsóknarflokkinn. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka