Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði að flokkurinn væri óbundinn nú, rétt eins og fyrir kosningar. Hún sagði, spurð um kosningabandalag við Miðflokkinn, að flokkarnir hefðu rætt saman í dag en að ekki hefði komið til þess að þeir gengju í bandalag.
Fjölmiðlar ræddu við Ingu að loknum fundi hennar við forseta Íslands. Inga sagði að þegar horft væri til sögunnar ætti stærsti flokkurinn eða sá sem væri sigurvegari kosninganna að fá umboð til stjórnarmyndunar. Í hennar huga væri Miðflokkurinn sigurvegari kosninganna.
Inga sagði að þau Sigmundur Davíð hefðu spjallað saman í dag og að Sigmundur hefði verið svo elskulegur að biðja bílstjórann sinn að skutla sér heim. „En við erum um margt lík í okkar málefnastefnu,“ sagði hún um Sigmund Davíð. Hún sagði að Flokkur fólksins væri til í að vinna með þeim sem vildu vinna að þeim málum sem flokkurinn setti á oddinn. Henni væri sama hvaða flokkar það væru.
Inga sagði að flokkurinn hefði gengið óbundinn til kosninga og hann væri enn óbundinn, þó sumir flokkar væru líkari Flokki fólksins en aðrir. „Það kemur allt til greina,“ sagði hún. „Það er bara ofsalega gaman núna. Við erum bara að spjalla saman en þetta eru óformlegar þreifingar.“
Hún nefndi að stjórnarandstaðan gæti líka myndað meirihluta og útilokaði ekki samstarf við þá flokka. Þar væru ýmsir snertifletir á milli flokkanna. „Það skiptir mestu máli að mynda ríkisstjórn sem byggir upp traust kjósenda á starfinu inni á þingi“. Ekki mætti tjalda til einnar nætur.
Hún sagðist ekki vilja sjá stöðnun á Íslandi því mikil og stór verkefni væru framundan. Það fælist í því mikil ábyrgð að vera á Alþingi Íslendinga.