Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lýsti þeim vilja sínum fyrir Guðna Th. Jóhannessyni forseta, að hann vildi fá umboð til myndunar ríkisstjórnar. Sigurður Ingi sagði við fjölmiðla eftir fundinn að hann vildi að ríkisstjórn yrði mynduð bæði með hægri- og vinstriflokkum. „Ég sagði honum að ég væri tilbúinn að taka við stjórnarmyndunarumboði,“ sagði Sigurður Ingi.
Þar með hafa þrír fyrstu gestir forsetans lýst yfir vilja sínum til að taka við stjórnarmyndunarumboðið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði eðlilegt að sá flokkur sem sigraði í öllum kjördæmum landsins, fengi umboðið á meðan Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði að sér þætti eðlilegast að minnihluti síðasta þings, sem nú hefði fengið meirihluta, fengi umboðið. Sigurður Ingi sagðist vilja mynda ríkisstjórn frá hægri til vinstri, yfir miðju. Það væri heppilegast með það að markmiði að stuðla að pólitískum stöðugleika.
Sigurður benti á að minnihlutaflokkar síðasta þings hefðu mjög tæpan meirihluta og sagðist vilja breiðari skírskotun þegar kæmi að myndun ríkisstjórnar. Sigurður Ingi sagði að Framsóknarflokkurinn hefði reynslu af því að miðla málum og leiða saman ólík sjónarmið.
Hann sagðist aðspurður ekki hafa rætt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins og fyrrverandi samstarfsmann, um ríkisstjórnarmyndun. Hann vildi ekki svara því hvort hann hefði rætt við Bjarna Benediktsson.