Forsvarsmenn Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokksins og Pírata funduðu saman á Alþingi í morgun, með óformlegum hætti. Þetta kom fram í máli Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, eftir fund sinn með forseta Íslands í morgun. Hann sagði að fundurinn hefði ekki verið skipulagður, heldur hefði fólk hist þar fyrir tilviljun.
Logi sagði að honum þætti eðlilegt að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fengi umboð til stjórnarmyndunar, ef hún óskaði eftir því. Hann sagði að skoða þyrfti málin hratt „á næstu klukkutímum“. Það væri rökrétt framhald af kosningunum. „Ég tel augljóst að Katrín fái umboð til að mynda ríkisstjórn og ég sagði forseta það.“
Logi sagði eðlilegt að menn ræddu saman með óformlegum hætti áður en boðað yrði til formlegra viðræðna. Hann tók sumpart undir að niðurstöður kosninganna væru ákall um ríkisstjórn á breiðum grunni. Hann væri reiðubúinn til fundahalda um myndun nýrrar stjórnar. Hann teldi þó að Katrín væri best til þess fallin að leiða slíkar viðræður.
Hann sagði að nú væri það stjórnmálanna að taka að sér það verkefni að dreifa gæðum landsins jafnar og vinna fyrir þá sem minnst mega sín í samfélaginu; „styrkja almannaþjónustuna, hefja stórsókn í menntamálum og síðan innleiða pólitískan stöðugleika, sem hefur virðingu, heiðarleika, traust og gagnsæi að leiðarljósi.“
Spurður hvort Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefði hringt í hann svaraði Logi: „Hann hefur aldrei hringt í mig á ævinni.“
Logi sagðist geta unnið með flestum en á endanum snerist þetta um hvernig samfélag menn vildu byggja. Hann vildi ekki útiloka Sjálfstæðisflokkinn en sagði að áherslur flokkanna tveggja væru mjög ólíkar. Hann sagðist ekki hafa átt neinar djúpar samræður um myndun nýrrar stjórnar, aðallega hefði hann rætt við fólk á leið til og frá beinum sjónvarpsútsendingum. Ég hef ekki átt neinar samræður við neinn nema á leið út og inn af sjónvarpsstöðvunum.
Næstur á fund forseta kemur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.