Tveir valkostir fyrir forsetann

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er hér vel merktur eftir koss …
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er hér vel merktur eftir koss á kinn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, eftir umræður í sjónvarpssal. Nú er spurning hvort þeirra fær umboðið fyrst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eva Heiða Önnudóttir, doktor í stjórnmálafræði, og Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur eru sammála um að aukin kosningaþátttaka á laugardaginn sé jákvæð. Sérstaklega í ljósi þess að stutt sé liðið frá síðustu alþingiskosningum.

Birgir segir að þrátt fyrir að stutt sé frá síðustu kosningum hafi flokkarnir náð að kveikja í kjósendum. Eva Heiða segir þjóðina ekki vera að koma einum skilaboðum á framfæri með atkvæðum sínum. Þegar fleiri flokkar bjóða fram séu kjósendur tilbúnir að kjósa aðra flokka en fjórflokkinn og fleiri kjósendur séu tilbúnir að fylgja nýjum flokkum. Birgir segir skilaboðin blendin en skýrt komi fram að stjórnmálin þurfi að tala betur saman á nýjum og auðmjúkari nótum. Birgir og Eva Heiða eru sammála um að staðan sé flókin við myndun ríkisstjórnar.

Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag segir Eva Heiða forseta Íslands hafa tvo kosti varðandi stjórnarmyndun. „Hann getur veitt þeim sem hann telur líklegastan til að mynda ríkisstjórn umboð og eða formanni stærsta stjórnmálaflokksins.“

Birgir telur að það velti á því hver fái umboðið hvort hér verði hægri eða vinstri miðjustjórn en möguleikarnir séu óvenjumargir. Stutt sé síðan formenn flestra flokkanna áttu í viðræðum og því þurfi ekki að byrja málefnaviðræður frá grunni.

Eva Heiða segir engan flokk standa með pálmann í höndum en Miðflokkurinn og Flokkur fólksins megi vel við una og Samfylkingin hafi bætt töluvert við sig.

„Nýju flokkarnir eru sigurvegararnir. Endurkoma Samfylkingarinnar er glæsileg og Vinstri græn komu vel út,“ segir Birgir.

Einlægni Ingu skilaði árangri

Birgir og Eva Heiða telja það ekki ólíklegt að framganga Ingu Sæland, formanns Flokks heimilanna, í kappræðum RÚV á föstudaginn hafi átt sinn þátt í góðri útkomu flokksins.

„Inga var einlæg og ástríðufull og hún sýndi meiri tilfinningar en stjórnmálamenn almennt gera. Það má ekki gleyma því að flokkurinn mældist með 8-10% í upphafi kosningabaráttunnar en missti fylgið um tíma. Flokknum tókst að koma baráttumálum sínum fyrir þá sem höllum fæti standa á dagskrá á lokametrunum,“ segir Eva Heiða. Birgir segir að Inga hafi sýnt raunverulega umhyggju fyrir þeim sem bágast standa og það hafi fallið í góðan jarðveg. 

Óþarflega almenn

Að mati Birgis vann Sjálfstæðisflokkurinn varnarsigur en hart var sótt að flokknum og Eva Heiða segir Sjálfstæðifslokkinn fastan í sínu kjarnafylgi. Það sama megi segja um Framsóknarflokkinn og Birgir bætir við að margir framsóknarmenn virðist hafa skilað sér heim. 

„Vinstri græn voru á gríðarlegu flugi. Þau gerðu þau mistök að vera óþarflega almenn og urðu þar af leiðandi ekki nógu sannfærandi. En þau mega vel við una,“ segir Birgir.

Eva segir Vinstri græn ekki standa uppi sem sigurvegara þrátt fyrir að vera næststærsti flokkurinn. Þau hafi fengið sviðið, talað of almennt og því ekki haldið sviðinu í lok baráttunnar. „Miðflokkurinn má vel við una. Hann er stofnaður nokkrum vikum fyrir kosningar, fær strax 10% í könnunum og heldur því,“ segir Eva Heiða og Birgir bætir við að flokkurinn höfði til framsóknarmanna og yfir á hægri miðjuna.

„Skelegg forysta og nýir talsmenn gáfu Samfylkingu góða endurkomu,“ segir Birgir. Eva Heiða segir að Samfylkingin hafi verið við það að þurrkast út en stillt upp nýju fólki, náð upp góðri stemningu og náð vopnum sínum á ný.

Birgir og Eva eru sammála um að Píratar hafi misst fylgi til Samfylkingarinnar og vaxandi tiltrú á gömlu flokkana spili þar inn í.

Viðreisn missti flugið en náði fylginu upp þegar skipt var um formann, segir Eva Heiða og Birgir bætir við að Viðreisn hafi sótt á sömu mið og Samfylkingin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka