Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að viðræður við aðra flokka hafi gengið ágætlega í dag. Hann hefur rætt við rúmlega helming þeirra flokka sem voru kosnir á þing en Samfylkingin, Framsókn, Píratar og Vinstri grænir hafa átt í óformlegum viðræðum eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir.
„Ég reikna með að menn tali saman áfram á morgun og velti fyrir sér hvort það er grundvöllur fyrir formlegra samtali,” segir Logi í samtali við mbl.is.
Spurður hvenær hann telji að forseti Íslands muni veita umboð til stjórnarmyndunar segir hann það ekki vera aðalatriðið. „Á meðan allir eru að vinna vinnuna sína og reyna að leita lausna og að samningsfleti, þá er það aðalatriðið.”
Hann bætir við: „Mér finnst þetta afslappað og ágætt svona, þetta bindur menn þá ekki. Formaður VG sagðist vera með nokkra bolta á lofti [í viðtali við RÚV]. Ég held að það sé kannski ágætt að menn hafi svigrúm til þess að vinna þetta þannig.”
Ganga hlutirnir hraðar en á sama tíma eftir kosningarnar í fyrra?
„Þetta er svolítið öðruvísi. Við höfum reynslu af þessum langa tíma þá. Menn eru kannski afslappaðri og átta sig á því að það þarf nauðsynlega að reyna að sameinast um þau verk sem menn eru sammála um í stað þess að reisa spjótin of hátt og láta steyta í byrjun.”
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði í kvöldfréttatíma RÚV að framsóknarmenn teldu meirihluta stjórnarandstöðunnar vera of tæpan. Þess vegna hefði verið rætt um að breikka samtalið eitthvað frekar.
„En það liggur líka fyrir af okkar hálfu að fleiri boltar eru á lofti og við erum að halda áfram samtölum okkar við alla,” sagði hún.