Framsóknarflokkurinn er ekki reiðubúinn að samþykkja að boðað verði til þjóðaratkvæðis um frekari skref í áttina að inngöngu í Evrópusambandið. Þetta sagði Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Lilja ræddi málið að fyrra bragði og sagði úrslit þingkosninganna á laugardaginn ekki vísbendingu um að Evrópusambandsmálið væri á dagskrá íslenskra stjórnmála. Spurð hvort Framsóknarflokkurinn vildi taka málið upp svaraði hún því neitandi.
Frétt mbl.is: Vilja ekki aðildarviðræður við ESB
Spurð áfram um mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um frekari viðræður við Evrópusambandið um inngöngu í sambandið sagðist Lilja ekki telja þjóðina vera að kalla eftir frekari kosningum. Frekar að stjórnmálamenn næðu sátt um sameiginleg málefni.
Spurð aftur hvort þetta þýddi að Framsókn vildi ekki að slíkt þjóðaratkvæði færi fram sagði Lilja: „Nei, við teljum að þetta mál sé ekki á dagskrá íslenskra stjórnmála.“ Viðreisn hafi sett málið á oddinn í kosningabaráttu sinni og tapað fylgi frá kosningunum fyrir ári og þó að Samfylkingin hafi gert það líka hafi það ekki verið með eins afgerandi hætti.
Lilja sagði niðurstöður kosninganna, með átta flokka inni á Alþingi, skilaboð um að hægt yrði að ná ákveðinni málamiðlun. Setja þyrfti auðvitað lykilmál þeirra flokka sem kæmu að stjórnarmyndun inn í stjórnarsáttmála. Finna þyrfti ákveðinn meðalveg en engu að síður setja markið mjög hátt til að mynda varðandi heilbrigðismálin, menntamálin og innviðina.
Spurð hvort Framsóknarflokkurinn gerði andstöðuna við þjóðaratkvæði um Evrópumálin að algeru úrslitaatriði varðandi mögulega stjórnarmyndun sagði Lilja að horfa þyrfti til stöðunnar í Evrópusambandinu. Bretar væru á leið úr sambandinu, ótrúleg staða væri uppi í Katalóníu á Spáni og skuldamál sem ekki væri búið að gera upp.
„Það eru næg verkefni á dagskrá íslenskra stjórnmála til þess að við séum ekki að bæta þessu við,“ sagði Lilja enn fremur og rifjaði upp stöðuna í vinstristjórninni 2009-2013 þar sem annar flokkurinn hafi viljað í Evrópusambandið en hinn ekki. Mjög erfitt væri að starfa í slíkri ríkisstjórn því annar aðilinn myndi alltaf tapa og missa þar með umboð sitt.
Gríðarleg orka hafi farið í Evrópusambandsumsóknina 2009-2013. „Og ég segi bara það eru næg verkefni sem við getum farið í þannig en þetta og við teljum að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins.“ Norðmenn væru ekki á leið í sambandið og Bretar á leiðinni út. Evrópusambandið myndi líklega taka miklum breytingum í náinni framtíð.