Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, missa bæði réttindi sín til örorkubóta nú þegar þau eru orðin launþegar en þau voru bæði öryrkjar fyrir kjör sitt til Alþingis.
Guðmundur sem er einnig formaður Bótar, aðgerðahóps um bætt samfélag, segir að öll réttindi hverfi.
„Við missum allt það og verðum launþegar,“ segir Guðmundur í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir líklegt að þau muni síðan bæði upplifa skerðingu á næsta ári vegna þeirra tekna sem þau fá í lok árs. „Já, það skerðist og við þurfum að endurgreiða og alls konar. Við eigum eftir að lenda í einhverju skrýtnu 1. júlí á næsta ári þegar uppgjör ársins fer fram. Það munu koma stórfurðulegir hlutir úr þeim potti og ég hlakka eiginlega bara til að sjá hvernig það kemur út,“ segir Guðmundur og bætir við að það sé raunin með margra öryrkja sem ná að afla sér einhverra tekna meðan þeir þiggja bætur. „Hinn 1. júlí er kallaður skerðingardagurinn, fyrir flesta. Þetta er bara eins og hlutskipti flestra öryrkja sem er auðvitað alveg skelfilegt, að tekjurnar skuli hafa svona rosalega mikil áhrif.“ Guðmundur segir að slíkt sé fælandi fyrir öryrkja að taka að sér vinnu meðan þeir eru á bótum því slíkt getur valdið skerðingum og endurgreiðslu.
„Ég veit um marga sem hafa fengið tekjur og þeir tapa bara á þeim. Sumir hafa fengið 500 þúsund krónur í tekjur og tapað síðan 100 til 200 þúsund krónum. Tapa kannski húsaleigubótum og fleira.“
Spurður um hvort hann viti til þess að tveir örykjar hafi farið beint inn á þing eins og hann og Inga segist hann ekki vita til þess. „Ég var nú að koma af síðasta kjararáðsfundi hjá Öryrkjabandalaginu og mér skilst að það hafi aldrei gerst að einhver fari beint úr þessum hópi og inn á þing.“