Fjárlög knýja á um að Alþingi komi saman

Alþingi kom saman 6. desember í fyrra.
Alþingi kom saman 6. desember í fyrra. mbl.is/Golli

Samkvæmt 22. grein stjórnarskrárinnar stefnir forseti lýðveldisins Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar. Hins vegar liggur fyrir að nú þarf að kalla Alþingi saman miklu fyrr. Eftir er að afgreiða aðkallandi mál, svo sem fjárlög ársins 2018.

Mikið kapp er lagt á að afgreiða fjárlög hvers árs fyrir áramótin enda segir í 41. grein stjórnarskrárinnar að ríkið megi ekkert gjald reiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp á síðasta þingi, skömmu fyrir stjórnarslitin, en það var órætt. Í fyrra var kosið 29. október en nýtt þing kom ekki saman fyrr en en rúmum fimm vikum síðar, 6. desember. Ekki var búið að mynda nýja ríkisstjórn þegar þing var sett í fyrra.

Nöfn nýkjörinna þingmanna á vef Alþingis

Landskjörstjórn kemur saman til fundar þriðjudaginn 7. nóvember til að úthluta þingsætum á grundvelli kosningaúrslita í kjördæmum, samkvæmt frétt á vef Alþingis í gær. Nöfn nýkjörinna alþingismanna hafa verið skráð og birt á vef Alþingis með fyrirvara um afgreiðslu landskjörstjórnar

Að loknum alþingiskosningum fá kjörnir þingmenn og jafnmargir varaþingmenn kjörbréf sent frá landskjörstjórn. Áður en landskjörstjórn gefur út kjörbréf og birtir úrslit fer hún yfir skýrslur yfirkjörstjórna um atkvæðatölur og úthlutar þingsætum.

Að loknum alþingiskosningum gegnir störfum forseta Alþingis, nái forseti ekki endurkjöri, sá varaforseti sem næst honum gengur í röð endurkjörinna varaforseta. Hann gegnir embættinu frá kjördegi og fram til þingsetningar, samkvæmt 2. mgr. 6. gr. þingskapa.

Þessi varaforseti er Steingrímur J. Sigfússon. Hann er jafnframt starfsaldursforseti þingsins og mun stjórna fundi þegar Alþingi kemur saman við þingsetningu. Sem kunnugt er náði Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, ekki kjöri að þessu sinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka