„Kemur í ljós hverjir ná saman“

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, í …
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, í bakgrunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við förum bara í þetta á grundvelli málefnanna og hvað hægt er að gera og hvað er ekki hægt að gera,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is spurð um mögulegar stjórnarmyndunarviðræður. Hún hafi ekki í hyggju að segja neitt afgerandi í þeim efnum fyrr en fyrir liggi nokkuð skýrar línur.

„Þetta er einfaldlega spurning um að forgangsraða rétt. Fara þarf í uppbyggingu meðal annars í heilbrigðismálum, menntamálum og samgöngumálum. Síðan eru mál eins og endurskipulagning fjármálakerfisins og þar á meðal húsnæðisliðurinn í verðtryggingunni, peningamálin og kjarasamningar. Það eru alveg næg verkefni.“

Mikilvægt að færast ekki of mikið í fang

Lilja sagði í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 í gær niðurstöðu þingkosninganna á laugardaginn ekki vera vísbendingu um að kjósendur vildu að Evrópumálin væru sett á dagskrá. Þar með talið þjóðaratkvæði um hvort taka ætti frekari skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið. Mörg önnur mál væru miklu brýnni.

Benti hún á í útvarpsþættinum að Evrópusambandsmálið hefði leikið vinstristjórnina 2009-2013 grátt, ekki síst þar sem hún hafi ekki verið skipuð flokkum sem hafi verið einhuga um að ganga í sambandið. Í samtali við mbl.is segir hún að önnur lexía frá þeirri ríkisstjórn væri að færast ekki of mikið í fang.

„Það er einfaldlega óþarfi að flækja lífið að óþörfu. Ég veit ekki hvernig þetta annars fer að lokum. Ég segi bara við mitt fólk að við séum með ákveðin málefni sem við viljum leggja áherslu á og við erum tilbúin að ræða við þá sem eru reiðubúnir að vinna með okkur að framgangi þeirra. Síðan kemur bara í ljós hverjir ná saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka