Þátttaka í ríkisstjórn vel inni í myndinni

Inga Sæland á Bessastöðum.
Inga Sæland á Bessastöðum. mbl.is/Golli

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir það vel inni í myndinni að flokkurinn komi til með að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi, miðað við þau samtöl sem áttu sér stað á milli formanna flokkanna í gær. Þar gæti hugsanlega verið um að ræða fimm eða sex flokka ríkisstjórn með öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki og Miðflokki.

„Mér líst rosalega vel á það sem ég held að verði. Ég er alveg sannfærð um að það sé kominn tími til breytinga og að við séum að fara að ná fram réttlæti fyrir fólkið okkar í landinu. Ég trúi því af öllu mínu hjarta.“

Inga segist hafa fundað með hinum og þessum síðustu daga og hafi spjallað við formenn einhverra flokka. Þar á meðal formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson. „Já, ég hef spjallað við Sigurð Inga,“ segir hún spurð út í samtölin við formennina.

Inga hefur ekki verið boðuð á fund með neinum formönnum í dag, enn sem komið er, en hún segir það geta breyst með klukkutíma fyrirvara.

Hef aldrei verið annað en vinstrisinnuð

Inga telur að góður farvegur sé fyrir stefnumál Flokks fólksins innan ríkisstjórnar sem innihéldi alla flokka nema Miðflokk og Sjálfstæðisflokk. „Það er hreinn farvegur miðað við það sem verið er að boða.“

Hún segist þó ekki eiga sér draum um eitthvert ákveðið ríkisstjórnarmynstur. „Minn draumur hefur bara verið að útrýma fátækt, hvernig sem við förum að því. Það er stærsti draumur minn.“

Telurðu meiri líkur á að það takist með vinstri-miðjustjórn?

„Miðað við velferð sem vinstrið hefur boðað og miðað við að ég hef aldrei verið annað en vinstrisinnuð, og ef allt í einu virkilega á að fara að vinna, þá er það bara frábært.“

Inga þvertekur fyrir að vera í einhvers konar bandalagi með Miðflokknum, eins og gefið var í skyn eftir að hún mætti með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, til Bessastaða á mánudag. Hún sat í aftursæti bílsins, en ástæða þess var sú að þau höfðu átt stuttan fund og ekki náðist að skutla Ingu heim áður en Sigmundur þurfti að mæta til Bessastaða á fund forseta Íslands. „Við áttum tíu mínútna spjall og maðurinn var elskulegur og bauð mér bílstjórann sinn því hann veit að ég er ekki með bílpróf. Ég hefði annars þurft að hringja á leigubíl. Mér fannst þetta bara fyndið.“

Þið gerðuð sem sagt ekki bandalag?

„Auðvitað ekki, enda hef ég enga heimild til að hitta einhvern mann og gera við hann bandalag án þess að ræða við þingflokkinn. Ég er hins vegar svolítið hrekkjótt og fannst þetta lúmskt galið.“

„Þau töluðu öll orðið eins og ég“

Aðspurð hvort hún telji líka að hægt sé að finna stefnumálunum Flokks fólksins farveg innan ríkisstjórnar sem mynduð yrði til hægri og innihéldi Sjálfstæðisflokk, Framsóknarflokk og Miðflokk, ásamt Flokki fólksins, segir hún: „Það er auðvitað búinn til stjórnarsáttmáli þegar margir flokkar koma saman. Þar verða að vera sameiginlegar áherslur og hægt að sammælast um þau verkefni sem verður unnið að. Ef það er ekki inni í myndinni, þá munum við ekki taka þátt í því.“

Inga segir að þegar margir flokkar ætli sér að ná saman sé nauðsynlegt að taka stóran hluta stefnumálanna og setja til hliðar. Það þurfi að gera til að hægt sé að að ná sameiginlegum áherslum um mikilvægustu málefnin. „Ef stjórnarsáttmálinn er skýr og segir nákvæmlega vilja þeirra sem eru að fara að vinna saman um aðalmálin þá ætti ekki að vera neitt vandamál.“

Inga bendir á að fyrir kosningar hafi allir flokkar verið farnir að boða velferð. „Það eru allir farnir að boða það að rétta hlut þeirra sem hafa það bágast í samfélaginu. Þau töluðu öll orðið eins og ég,“ segir Inga og hún vill meina að orðræða flokksins hafi haft áhrif á áherslur hinna flokkanna.

„Ef það er megináherslan núna þá er það eins yndislegt og það getur orðið. Ef það er mikill vilji til góðra verka fyrir fólkið í landinu, þá er Flokkur fólksins alsæll.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert