Elín Margrét Böðvarsdóttir
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er mætt til fundar við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, á Bessastöðum. Guðni boðaði Katrínu á sinn fund fyrr í dag og hófst fundurinn á slaginu kl. 16:00. Aðspurð á leið sinni inn á fund forseta kvaðst Katrín ekki vita hversu langur fundurinn yrði en hún hyggst ræða við fjölmiðla að honum loknum.
Í morgun áttu fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknar og Pírata fund í húsnæði Alþingis þar sem rætt var hvort málefnalegur grundvöllur væri fyrir stjórnarsamstarfi. Samkvæmt heimildum mbl.is náðist samkomulag um það á fundinum að þessir fjórir flokkar myndu hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Katrín mun því óska eftir því við forseta Íslands að hún fái umboð til stjórnarmyndunarviðræðna.