Meiri líkur en minni á að þetta náist

Eiríkur telur meiri líkur en minni á því að Katrín …
Eiríkur telur meiri líkur en minni á því að Katrín nái að mynda ríkisstjórn. mbl.is/Hari

„Þau eru væntanlega komin það langt að það séu alla vega meiri líkur en minni á að þetta náist saman. Annars hefði nú ekki verið farið af stað,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur um þá staðreynd að Katrín Jakobsdóttir hafi fengið formlegt stjórnarmyndunarumboð og freisti þess nú að koma saman fjögurra flokka ríkisstjórn Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks.

„Í rauninni má gera ráð fyrir því að í ljósi þess að þessi tími var látinn líða áður en farið var í að sækja umboðið að þá sé komin skuldbinding allra þessara flokka um að láta þetta ganga upp.“

Nálgunin yfirvegaðri en í fyrra

Eiríkur segir nálgunina nú vera miklu yfirvegaðri en í fyrra, og það hjá öllum flokkum en ekki einungis þeim fjórum sem nú freista þess að mynda ríkisstjórn. „Það hafa ekki verið þessi læti sem voru þá, þessi furðulega stöðutaka sem allir voru í. Ég met það þannig að þau myndu ekki taka þetta skref nema vegna þess að menn ætluðu sér að ná þessu saman. Annars hefði bara verið beðið lengur.“

„Það hefur náttúrulega verið þannig að Framsóknarflokkurinn hefur litið svo á að hann hafi kannski nokkra aðra möguleika heldur en bara þennan þannig það gæti verið að þeir myndu halda að það væri betra tilboð annars staðar. En þeir eiginlega svara samt þeirri spurningu í dag með því að fara inn í þetta formlega samtal núna. Það sé þarna sem þeir vilji halla sér,“ segir Eiríkur um hvað það væri helst sem viðræðurnar gætu strandað á.

„En það er auðvitað fullt af málum svo sem, en mér sýnast nú ekki vera nein stórmál sem munu endilega brjóta á. Maður sér ekki betur heldur en að Samfylkingin sé búin að gefa eftir Evrópumálið, alla vega að stóru leyti. Maður sér ekki að þeir áköfustu í stjórnarskrármálinu muni endilega láta brjóta á því. Síðan eru kannski einhverjar breytingar sem menn sjá fyrir sér á fiskveiðistjórnunarkerfinu og landbúnaðarkerfinu eða eitthvað því um líkt,“ segir Eiríkur. Svo séu það klassísku málin eins og skipting ráðuneyta og málaflokka. „En ég geri bara ráð fyrir því að það sé búið að fara yfir þessa hluti alla og að menn séu búnir að sjá fyrir sér einhverja lausn á þeim.“

Hljóti að koma til álita að bæta fimmta flokknum við

Fjögurra flokka stjórn Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks myndi einungis hafa eins manns meirihluta á þingi og hefur það valdið þó nokkrum vangaveltum. „Þetta er auðvitað mjög tæpt,“ segir Eiríkur. „En í rauninni er það nú kannski ekki stærðin sem skiptir máli. Þegar síðasta ríkisstjórn féll þá féll hún ekki á einhverjum einum þingmanni, hún féll á heilum þingflokki. Það er nú ekki endilega bara það sem skiptir máli.“

„Síðan hlýtur að koma til álita, þó svo að þessir flokkar hafi ekki séð ástæðu til þess núna, að stækka hópinn og bæta við Viðreisn eða Flokki fólksins eða báðum þegar líður á viðræðurnar. Það hlýtur að koma til álita alla vega.“

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur.
Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert