Reyna að „skrúfa saman“ í stjórnarsáttmála

Katrín Jakobsdóttir ræðir við fjölmiðla eftir fundinn á Bessastöðum.
Katrín Jakobsdóttir ræðir við fjölmiðla eftir fundinn á Bessastöðum. mbl.is/Hari

„Formlega hef ég nú umboð til stjórnarmyndunar í ljósi þess að formenn þessara fjögurra flokka sammæltust um það að hefja formlegar viðræður á fundi fyrr í dag,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að loknum fundi með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag.

Að sögn Katrínar munu því formlegar stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata hefjast á morgun, enda liggi fyrir skuldbinding þessara fjögurra flokka um að „reyna að skrúfa saman“ stjórnarsáttmála.

„Við munum leggja okkur fram við að vinna hratt þannig að línur ættu að skýrast svona á næstu dögum um það hvort þetta gangi saman,“ segir Katrín sem kveðst þó ekki geta sagt til um það nánar hversu langan tíma það muni taka flokkana að ráða ráðum sínum.

Allir muni þurfa að gefa eitthvað eftir

„Það sem ég legg áherslu á er að þessi ríkisstjórn tæki fyrst og fremst á stóru línunum, það er að segja annars vegar að ráðast í þá uppbyggingu sem var mest til umfjöllunar fyrir kosningar, uppbyggingu í heilbrigðismálum, menntamálum, samgöngumálum,“ sagði Katrín, spurð hvaða málefni verði fyrirferðarmest hjá þeirri ríkisstjórn sem hún nú mun reyna að mynda.

Þá blasi einnig við stór mál á borð við að ná sátt á vinnumarkaði en aukinheldur kveðst Katrín leggja sérstaka áherslu á annars vegar jafnréttismál og hinsvegar loftslagsmál. Hún hyggist leggja sig fram um það að skapa aukna samstöðu um þau mál sem og breytt vinnubrögð á þingi.  

„Ég held að nú sé ekki tími í íslensku samfélagi til að vera endilega vera að leysa úr öllum heimsins ágreiningsmálum,“ sagði Katrín, spurð hvort hún sé bjartsýn á að flokkarnir muni ná sátt um þau málefni sem þá greinir á um. „Allir munu þurfa að leggja eitthvað til hliðar. Það er engin ein ríkisstjórn sem getur leyst öll heimsins ágreiningsmál,“ sagði Katrín.

Spurð um skiptingu ráðuneyta segir Katrín þau mál vera meðal þess sem hafi verið reifuð meðal flokkanna í óformlegum viðræðum þeirra hingað til. Aftur á móti sé ekki komin niðurstaða í þau mál. Hún ætlar að fjöldi ráðuneyta verði nokkuð óbreyttur frá því sem nú er. „Þetta er allt eitthvað sem við eigum ekki að ræða. Ég er ekki komin með stjórnarsáttmála í hendurnar,“ segir Katrín en hún væntir þess að ef ríkisstjórn þessi verði að veruleika muni allir flokkar er að henni koma eiga ráðherra í ríkisstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka