Traust mikilvægara en stærð meirihlutans

mbl.is/Hjörtur

„Ég held að það skipti meiru að flokkarnir séu sammála um stjórnarsáttmálann, líði vel með hann og beri traust til hvors annars en hversu stór þingmeirihlutinn að baki mögulegri ríkisstjórn er. Ef við skoðum síðustu ríkisstjórn þá sprakk hún ekki vegna þess að hún hafði 32 þingmenn á bak við sig. Hún hefði sprungið líka ef þingmeirihlutinn hefði verið 35.

Þetta segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, í samtali við mbl.is en Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, fundar með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 16:00 í dag þar sem hún mun óska eftir umboði til stjórnarmyndunar. Hefja á formlegar viðræður um ríkisstjórn fjögurra flokka; VG, Framsóknarflokksins, Pírata og Samfylkingarinnar.

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor.
Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

„Ef við skoðum síðustu ríkisstjórn þá sprakk hún ekki vegna þess að hún hafði 32 þingmenn á bak við sig. Hún hefði sprungið líka ef þingmeirihlutinn hefði verið 35. Það er munur á því að heill flokkur gangi úr skaftinu eða hvort einn þingmaður yfirgefur stjórnina. Þannig séð getur stærri meirihluti verið jafnóöruggur ríki ekki traust og ánægja með samstarfið.“

Spurður hvort sé betra, standi valið á milli þess, að vinna með flokkum sem standi málefnalega nær viðkomandi en þar sem skortur er á trausti eða þeim sem eru fjær málefnalega en þar sem meira traust ríkir segir Grétar að besta fyrirkomulagið sé auðvitað að bæði málefnalegur samhljómur og traust sé fyrir hendi á milli flokka.

Væntanlega ekkert gert í Evrópumálunum

„Hvað þetta fyrirkomulag varðar þá er allavega nokkuð ljóst að ekkert verður gert varðandi Evrópusambandið. Það er að minnsta kosti tveimur flokkum þarna af fjórum algerlega ósárt um það, VG og Framsókn. Þannig að það virðist vera að hinir tveir flokkarnir séu þegar búnir að gefa það eftir. Hvað annað varðar kemur það væntanlega bara í ljós.“

Þessir fjórir flokkar ættu að geta fundið málefnalegan flöt. Ekki síst ef hugmyndin sé að leggja áherslu á fá en mikilvæg mál. „En auðvitað verða flokkarnir að finna fyrir traustinu líka. Bæði á milli flokkanna og formannanna. Það skiptir vitanlega máli. Það þarf að vera samstarfsvilji og traust. Fara ekki í eitthvað sem viðkomandi líður ekki vel í.“

Þannig virtist Bjartri framtíð ekki hafa liðið nógu vel í síðustu ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn. „Það er kannski ekki gott að leggja upp í svona leiðangur með þeim formerkjum. Katrín er annars væntanlega búin að sýna forsetanum fram á að  það sé grundvöllur fyrir formlegum viðræðum og forsetinn hlýtur að taka tillit til þess.“

Hvað framhaldið varðar segir Grétar: „Kannski leggur fólk upp með að klára þetta bara og fá svo stuðning frá öðrum flokkum. Það verður að gera ráð fyrir því að flokkarnir séu í þessu af heilum hug. Væntanlega fara næstu dagar í þessar viðræður og allavega eitthvað fram yfir helgina. Hvort þetta síðan heppnast eða annað verður skoðað kemur síðan bara í ljós.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert