„Uppbyggingarstjórn“ í farvatninu

Sigurður Ingi Jóhannsson á Bessastöðum fyrr í vikunni.
Sigurður Ingi Jóhannsson á Bessastöðum fyrr í vikunni. mbl.is/​Hari

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, er bjartsýnn á að stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata eigi eftir að ganga vel.

Hann segir meirihlutann vissulega tæpan og segir það áskorun fyrir þá flokka sem standa að slíku stjórnarsamstarfi, ef af því verður, að standa betur saman um verkefnið. Einnig kalli það á aukið samráð við aðra flokka á þingi.

„Við erum fyrst og fremst sammála um að þessi stjórn, ef af henni verður, verður uppbyggingarstjórn á þeim sviðum þar sem allir eru sammála um að þurfi að fara í uppbyggingu,“ segir Sigurður Ingi og á við heilbrigðis-, mennta- og samgöngumál, auk löggæslu. Hann leggur áherslu á að allir landsmenn skuli njóta góðs af því.

„Við leggjum líka áherslu á að við höfum áframhaldandi stöðugleika í atvinnulífinu eins og við höfum haft undanfarin ár, ef af verður. Þessi ríkisstjórn á ekki að reyna að gera hvað sem er. Hún á fyrst og fremst að snúa að þeim verkefnum sem allir eiga að sameinast um. Ekki vera í málum sem sundra flokkum og þjóðinni.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Bessastöðum í dag.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á Bessastöðum í dag. mbl.is/Hari

Spurður út í viðræður flokkanna fjögurra um stjórnarskrármál síðustu daga segir Sigurður Ingi að finna þurfi flöt á því hvernig ferlið í þeirri vinnu skuli vera.

Sigurður Ingi ræddi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, í gær. Hann segist hafa rætt við Sigmund um stöðuna í stjórnmálunum, eins og aðrir stjórnmálaforingjar sem tali saman við aðstæður sem þessar.

„Ég hef talað fyrir því að 32 manna meirihluti sé tæpur og til þess að það gangi þarf allur hópurinn að vera sammála. Við höfum verið að leita leiða um hvaða möguleikar eru til myndunar starfhæfrar ríkisstjórnar. Núna eru þessir fjórir flokkar í viðræðum og þá snúum við okkur alfarið að þeim viðræðum, eðli málsins samkvæmt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert