Málefnunum skipt í tvennt

Fundarmenn á heimili Sigurðar Inga Jóhannssonar.
Fundarmenn á heimili Sigurðar Inga Jóhannssonar. mbl.is/Eggert

Forystumenn stjórnmálaflokkanna fjögurra sem vinna að myndun nýrrar ríkisstjórnar hafa frá því í morgun setið á fundi á heimili Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi skammt frá Flúðum.

Fundurinn hófst klukkan 10.0 í morgun en í hádeginu var gert fundarhlé og mætti sendill frá Flúðum á staðinn með pitsur sem fundarmenn gerðu góð skil. Fundir hófust aftur að loknu hádegishléi og munu standa í allan dag. „Við vildum hittast í nýju umhverfi og fá frið og kynnast öll,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.

Heimilishundurinn Kjói var ánægður með gestaganginn.
Heimilishundurinn Kjói var ánægður með gestaganginn. mbl.is/Eggert

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði að fyrirkomulag viðræðnanna væri þannig að málefnunum sem væru í deiglunni væri skipt í tvennt. Annars vegar væri það uppbygging ýmissa innviða í þjóðfélaginu og um hana væri í raun lítill ágreiningur. Hins vegar mál sem meiri meiningarmunur væri um. Til að mynda auðlindamál og stjórnarskrármálið.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, talsmaður Pírata, sagði þó að fyrirhuguð ríkisstjórn hefði aðeins eins manns meirihluta vildu menn horfa á málið lausnamiðað og lítill meirihluti væri ekki fyrirstaða enda væri ætlunin bæði að ná breiðri samstöðu og þrétta raðirnar.

Fundir munu standa í allan dag í Syðra-Langholti en á morgun verður væntanlega fundað á öðrum stað.

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert