„Við héldum áfram því samtali sem við vorum í í gær,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, eftir fund fulltrúa flokkanna fjögurra sem eiga í stjórnarmyndunarviðræðum sem lauk nú fyrir skemmstu. „Við vorum svolítið að ræða uppbyggingarmál, heilbrigðismál, menntamálin, samgöngurnar og fleira. Í dag fórum við líka yfir kjaramálin, stöðuna á vinnumarkaði og kjör aldraðra og öryrkja.“
Katrín segir viðræður flokkanna, Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata, enn vera á því stigi að þau séu að fara yfir heildarmyndina, en sá þáttur sé kominn vel á veg. „Við erum ekki komin á þann stað að við séum eitthvað farin að útkljá einstaka þætti heldur meira svona að ná að klára þessa kortlagningu á heildarmyndinni. Það eru eru ákveðin mál sem bíða núna á morgun sem verða unnin áfram.“
„Eins og ég hef áður sagt þá tel ég að þetta mál skýrist allt saman á mánudaginn hvort fólk sé reiðubúið í að fara í það að skrifa stjórnarsáttmála.“ Hún segir einnig munu standast að forsetinn heyri frá þeim á morgun eða hinn.
Þegar hún er spurð út í ásakanir þess efnis að forsetinn hafi verið blekktur til að veita umboð til myndunar minnihlutastjórnar vegna afstöðu Bjarnar Leví, þingmanns Pírata, sem Bergþór Ólason bendir á í pistli á Facebook-síðu sinni segist Katrín hafa fengið að heyra það frá forystu Pírata að þau séu í þessu af heilum hug. „Að sjálfsögðu tek ég þeirra orð trúanleg í því samhengi, enda liggur það algerlega fyrir að ef við ætlum að fara að ráðast í þetta verkefni með þetta nauman meirihluta þá þurfa allir flokkar að vera reiðubúnir að skila sínu 100% inn í það.“
Hún segir að á morgun ætli flokkarnir að halda þingflokksfundi til að fara yfir og upplýsa um stöðuna. Líklega haldi viðræður flokkanna fjögurra áfram seinni partinn á morgun.