„Við erum í þessum formlegu viðræðum og ég hef engin komment varðandi hvað aðrir eru að gera á meðan,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is.
Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi átt samtal í gær þar sem meðal annars kom fram að Sigmundur Davíð teldi enga annmarka á því að Miðflokkurinn ætti samstarf við Framsóknarflokkinn, undir forystu Sigurðar Inga, og Sjálfstæðisflokkinn, undir forystu Bjarna Benediktssonar.
Inntur eftir viðbrögðum við þessari afstöðu Sigmundar Davíðs kveðst Sigurður Ingi ekki ætla að tjá sig um samskipti þeirra formanna sem ekki eiga aðild að þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem nú standa yfir.
„Þetta þokaðist í gær og við ætlum bara að halda áfram í dag,“ Sagði Sigurður Ingi er hann gekk inn á fund með fulltrúum VG, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Pírata sem nú stendur yfir.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir viðræðunum þoka ágætlega áfram. „Við svo sem vorum bara að ræða á almennu nótunum í gær og erum að fara að gera það aftur núna,“ segir Logi.
„Við náttúrlega hugsum um þau mál sem snúa að réttlátri skiptingu samfélagsins og kjörum almennings,“ segir Logi, spurður hvort einhver mál verði ekki gefin eftir af hálfu Samfylkingarinnar í stjórnarmyndunarviðræðunum. Í því samhengi hafi Samfylkingin til að mynda talað fyrir uppbyggingu opinbers heilbrigðiskerfis og heilbrigðismálum almennt, átaki gegn ofbeldi og áherslu á húsnæðismál.
„Við höfum talað um sókn í menntamálum, nýsköpun og tækni til þess að búa okkur undir framtíðina og síðast en ekki síst þá náttúrlega höfum við haldið á lofti nauðsyn þess að hér fari fram heildarendurskoðun á stjórnarskrá,“ segir Logi ennfremur.
Hann telur þó ekki líklegt að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB nái inn í stjórnarsáttmála þeirra flokka sem nú eiga í viðræðum.
„Við leggjum áherslu á gott samstarf við Evrópu, sjáum fyrir okkur að styrkja það samband, styrkja stöðu okkar innan EES samningsins, en þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi viðræður er mál sem að verður sennilega erfitt að ná í gegn,“ segir Logi. „Við hins vegar teljum að það séu svo mörg brýn verkefni sem bíða okkar þar sem jafnaðarmenn verða að vera við stýrið að við munum ekki láta steyta á því.“