„Við munum standa við þetta“

Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir eru fulltrúar Pírata í …
Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir eru fulltrúar Pírata í stjórnarmyndunarviðræðunum ásamt Helga Hrafni Gunnarssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Taki Píratar sæti í ríkisstjórn munu þeir standa við þá afstöðu sína að ráðherrar gegni ekki þingmennsku meðan þeir sitja í embætti. Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir pírati í samtali við mbl.is fyrir fundinn sem nú stendur yfir með fullrúum flokkanna fjögurra sem eiga í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum.

Aðspurð hvort þetta tiltekna atriði hafi komið til álita í stjórnarmyndunarviðræðunum sem nú standa yfir segir hún svo vera, þetta atriði meðal annarra hafi verið til umræðu í viðræðunum.  „Við munum standa við þetta,“ segir Þórhildur Sunna.

Spurð hvort leitað yrði að ráðherraefnum út fyrir þingflokkinn eða hvort kjörnir þingmenn myndu segja sig frá störfum á meðan þeir gegni embætti ráðherra kveðst Þórhildur Sunna ekki geta farið út í það nánar enda sé þetta allt enn til skoðunar.

Sáttmálinn yrði borinn undir pírata í rafrænni kosningu

„Við munum náttúrlega leggja stjórnarsáttmálann undir aðra félagsmenn eins og aðrir flokkar gera og til þess notum við kosningakerfið okkar,“ segir Þórhildur Sunna spurð um notkun rafræns kosningakerfis Pírata í tengslum við hugsanlega stjórnarmyndun.

Aftur á móti verður kosningakerfið ekki notað til að leggja einstaka mál sem koma til afgreiðslu ríkisstjórnarinnar, ef af henni verður, í dóm hins almenna pírata. „Það er ekkert ferli í okkar kosningakerfi sem að heimilar kosningar um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Kosningakerfið okkar er fyrir stefnumótun, ekki fyrir ákvarðanir framkvæmdavaldsins,“ segir Þórhildur Sunna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert