„Við munum standa við þetta“

Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir eru fulltrúar Pírata í …
Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir eru fulltrúar Pírata í stjórnarmyndunarviðræðunum ásamt Helga Hrafni Gunnarssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Taki Pírat­ar sæti í rík­is­stjórn munu þeir standa við þá af­stöðu sína að ráðherr­ar gegni ekki þing­mennsku meðan þeir sitja í embætti. Þetta sagði Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir pírati í sam­tali við mbl.is fyr­ir fund­inn sem nú stend­ur yfir með full­rú­um flokk­anna fjög­urra sem eiga í form­leg­um stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum.

Aðspurð hvort þetta til­tekna atriði hafi komið til álita í stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðunum sem nú standa yfir seg­ir hún svo vera, þetta atriði meðal annarra hafi verið til umræðu í viðræðunum.  „Við mun­um standa við þetta,“ seg­ir Þór­hild­ur Sunna.

Spurð hvort leitað yrði að ráðherra­efn­um út fyr­ir þing­flokk­inn eða hvort kjörn­ir þing­menn myndu segja sig frá störf­um á meðan þeir gegni embætti ráðherra kveðst Þór­hild­ur Sunna ekki geta farið út í það nán­ar enda sé þetta allt enn til skoðunar.

Sátt­mál­inn yrði bor­inn und­ir pírata í ra­f­rænni kosn­ingu

„Við mun­um nátt­úr­lega leggja stjórn­arsátt­mál­ann und­ir aðra fé­lags­menn eins og aðrir flokk­ar gera og til þess not­um við kosn­inga­kerfið okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Sunna spurð um notk­un ra­f­ræns kosn­inga­kerf­is Pírata í tengsl­um við hugs­an­lega stjórn­ar­mynd­un.

Aft­ur á móti verður kosn­inga­kerfið ekki notað til að leggja ein­staka mál sem koma til af­greiðslu rík­is­stjórn­ar­inn­ar, ef af henni verður, í dóm hins al­menna pírata. „Það er ekk­ert ferli í okk­ar kosn­inga­kerfi sem að heim­il­ar kosn­ing­ar um ákv­arðanir rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Kosn­inga­kerfið okk­ar er fyr­ir stefnu­mót­un, ekki fyr­ir ákv­arðanir fram­kvæmda­valds­ins,“ seg­ir Þór­hild­ur Sunna.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert