Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist taka fregnum af viðræðuslitum í stjórnarmyndun Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingar og VG af miklu æðruleysi. Þetta komi henni ekki alveg í opna skjöldu.
„Ég get ekki sagt að þetta komi ekki á óvart en það eru kannski ákveðin vonbrigði að þau skyldu ekki getað komið sér saman,“ segir Inga við mbl.is.
Píratar viðruðu þá hugmynd í hádeginu að það þyrfti að fá fleiri flokka í viðræðurnar til að meirihlutinn yrði ekki jafntæpur og hann hefði orðið með áðurnefndum fjórum flokkum. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, skilar umboði sínu til stjórnarmyndunar til forseta Íslands síðdegis og Inga segir því spurningu um hvort Flokkur fólksins myndi vilja taka þátt í viðræðum með flokkunum fjórum ekki eiga við:
„Þetta er búið. Það er ekkert hægt að tala um það lengur, þetta er búið og er ekkert inni í myndinni.“
Spurð hvort hún myndi taka þátt í viðræðum með Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Miðflokknum segir Inga að það sé ótímabær umræða. „Í raun erum við ekki komin í neinar viðræður við einn né neinn. Við verðum bara að lofa deginum að líða og sjá hvað hann ber í skauti sér,“ segir Inga.
„Ég veit ekki hver fær næstur umboðið en býst við því að það verði Bjarni Benediktsson. Ég veit ekki hver hans skref verða og hvað hann vill gera.“
Inga kveðst ekki hafa rætt við Bjarna nýlega og segir að allt verði þetta að koma í ljós.