Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur varið kvöldinu í að hringja í forystumenn stjórnmálaflokkanna til þess að heyra sjónarmið þeirra í kjölfar þess að upp úr viðræðum fjögurra flokka, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Pírata, slitnaði í dag.
Guðni sendi frá sér tilkynningu í dag eftir að hann hafði fundað með Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, þar sem hún skilaði inn stjórnarmyndunarumboði sínu þar sem hann sagðist ætla að ræða við forystumenn flokkanna. Ekki verður veitt nýtt umboð á næstunni en flokkunum veitt svigrúm varðandi næstu skref.
Samkvæmt upplýsingum frá forsetaskrifstofunni er ekki víst að forsetanum takist að heyra í öllum forystumönnunum í kvöld.