„Þetta eru ákveðin vonbrigði og ég er eiginlega dálítið hissa,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um slit stjórnarmyndunarviðræðnanna. Framsóknarflokkurinn ákvað að slíta viðræðum fjögurra fráfarandi stjórnarandstöðuflokka nú rétt fyrir hádegi. Ástæðan er sú að flokkurinn telur 32 þingmanna meirihluta, sem flokkarnir fjórir hefðu haft á bak við sig, of nauman til að takast á við brýn verkefni sem fram undan eru.
Logi segir þetta útspil Framsóknarflokksins á þessum tímapunkti koma á óvart, enda hafi flokkarnir allir lagt eitthvað til hliðar til að sameinast um brýnustu verkefnin. Þannig hafi verið málefnalegur grundvöllur fyrir samstarfi þeirra á milli.
„Í upphafi tala menn um þennan tæpa meirihluta og ég hafði fullan skilning á því af því þetta eru ólíkir flokkar. Þá var strax boðið upp á það af okkar hálfu að taka inn fimmta flokkinn, en það var ekki vilji til þess,“ segir Logi og á þar við Viðreisn.
„Við héldum því inn í þetta og flokkarnir brutu sig í gegnum skaflinn, lögðu allir til hliðar einhver mál til að sameinast um þessi brýnustu verkefni. Þegar ljóst var að það mundi takast hélt ég að menn væru orðnir sannfærðir um að það væri meginhindrunin og við gætum unnið saman þrátt fyrir þennan tæpa meirihluta. Mér finnst því sérkennilegt á margan hátt að tefla því fram svona í lokin, en það er auðvitað bara mitt viðhorf.“
Logi ítrekar að Framsóknarflokkurinn hafi viðrað áhyggjur sínar af naumum meirihluta og það hafi legið fyrir frá upphafi. Það hafi hins vegar líka legið fyrir að Samfylkingin hafi verið tilbúin að breikka viðræðurnar.
„Við héldum að fyrst þau vildu það ekki, en héldu samt áfram á þessum nótum, þá myndum við, ef við næðum saman um málin, geta þetta. Ég er sannfærður um að við hefðum getað þetta. Ég er líka sannfærður um að þetta er það sem þjóðin þurfti á að halda núna eftir þennan pólitíska óstöðugleika og hneykslismál sem hafa hellst yfir okkur á síðustu tveimur árum.“
Formenn flokkanna funduðu stíft um helgina og fram á kvöld í gær, og segir Logi það ekki hafa legið í loftinu að þetta yrði niðurstaðan í dag. „Ég vaknaði býsna brattur og fékk þá bara símtal sem var í þessa veru.“
Aðspurður hvort hann telji að Framsóknarflokkurinn hafi kannski verið kominn með hugann eitthvað annað undir lokin segist Logi ekki geta svarað því. Hann eigi nógu erfitt með að henda reiður á sínum eigin hugsunum. Fyrir liggur hins vegar að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ræddu saman í síma fyrir helgi. Var um sögulegt símtal að ræða, enda höfðu formennirnir elt saman grátt silfur og lítið talast við. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, sagði í samtali við mbl.is á fimmtudag að meiri líkur væru á samstarfi á milli flokkanna eftir símtalið.
Þrátt fyrir að viðræðum þessara fjögurra flokka hafi verið slitið er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, ennþá með stjórnarmyndunarumboðið, en forseti Íslands hefur boðað hana á sinn fund síðar í dag. Spurður hvort hann telji að Samfylkingin komi til með að taka þátt í viðræðum annarra flokka um myndun ríkisstjórnar segist Logi eiga erfitt með að svara því núna. „Mér þykir ekkert ólíklegt að hún vilji tala við okkur,“ segir hann og vísar þar til Katrínar. „Það er bara nýr dagur, ný verkefni, nýjar áherslur og nýjar aðstæður. Við nálgumst þetta bara þannig.“
Hann segir enga formlega fundi hafa verið boðaða í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður. Fólk sé hins vegar alltaf að tala saman. „Það er í raun enginn munur á formlegum og óformlegum fundum í þessu nema það eru stundum hnetur og súkkulaði á formlegu fundunum. Að öðru leyti er þetta að mestu leyti eins.“