Katrín skilar forsetanum umboðinu

Katrín segir að flokkarnir þurfi nú að fá svigrúm til …
Katrín segir að flokkarnir þurfi nú að fá svigrúm til að ræða málin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, mun skila stjórnarmyndunarumboðinu til forseta Íslands á fundi þeirra klukkan fimm í dag. Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti henni formlegt umboð fyrir helgi til að mynda ríkisstjórn með Framsóknarflokknum, Samfylkingunni og Pírötum, en eins og greint hefur verið frá sleit Framsóknarflokkurinn stjórnarmyndunarviðræðum rétt fyrir hádegi í dag. Ástæðan var sú að þeir töldu meirihlutann of nauman til að takast á við þau stóru verkefni sem fram undan eru.

„Ég fer á fund forsetans á eftir. Hann gaf mér svigrúm til að fara yfir stöðuna, leita ráðrúms í mínu baklandi og heyra í öðru fólki. Ég mun hins vegar fara til hans á Bessastaði klukkan fimm og skila þessu umboði í ljósi þess að ég hef engan annan meirihluta í hendi,“ segir Katrín. Þrátt fyrir að hún hafi ekkert í hendi núna segir hún ýmis möguleg ríkisstjórnarmynstur hægt að sjá fyrir.

„Ég held að það sem stjórnmálamenn og flokkar muni þurfa aftur sé einhvers konar svigrúm. Við vorum lögð af stað í þennan leiðangur, þessir fjórir flokkar, og nú þurfum við að fá svigrúm til að fara aftur yfir stöðuna.“

Telurðu að forsetinn veiti þetta svigrúm?

„Nú eigum við bara eftir að eiga þetta samtal. Mér finnst bara eðlilegt að eiga núna fund með forsetanum og fara yfir þessa stöðu. Ég mun svo greina frá því samtali þegar því er lokið,“ segir Katrín en hún ætlar að funda með þingflokki sínum áður en hún heldur á Bessastaði.

Aðspurð hvort hún telji líkur á að hún fái umboð til stjórnarmyndunarumboðs á nýjan leik, til að hefja viðræður við aðra flokka, segir hún: „Það getur allt gerst núna.“

 „Það kemur ekkert mér á óvart lengur“

Katrín segist vonsvikin yfir að viðræður áðurnefndra fjögurra flokka skuli ekki hafa gengið eftir enda vonaðist hún til að næðist að mynda stjórn.

„Ég ber mikið traust til alls þessa fólks; Sigurðar Inga, Loga og Þórhildar Sunnu. Þetta hefur verið ofboðslega gott samtal. Það má segja að það sem Framsóknarflokkurinn hélt á lofti frá upphafi, að meirihlutinn væri naumur, hafi verið það sem vó þyngst á endanum. Auðvitað eru það vonbrigði en það breytir því ekki að samtalið var gott.

Hún segir það í raun ekki hafa komið sér á óvart að þetta yrði niðurstaðan, í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hafði viðrað áhyggjur sínum af þessum nauma meirihluta. „Það kemur ekkert mér á óvart lengur. Við vissum öll að þetta væri ekki auðveld staða eftir kosningar. Það er bara þannig sem maður nálgast þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert