Stjórnarmyndunarviðræðum slitið

Stjórnarmyndunarviðræðum á milli VG, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata, hefur verið …
Stjórnarmyndunarviðræðum á milli VG, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata, hefur verið slitið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framsóknarflokkurinn hefur slitið stjórnarmyndunarviðræðum vegna þess að flokkurinn telur meirihlutann of nauman til að takast á við þau stóru verkefni sem fram undan eru, þar á meðal kjaraviðræður. Samkvæmt heimildum mbl.is ber Framsóknarflokkurinn ekki traust til Pírata með svo nauman meirihluta á bak við sig.

Flokkarnir fjórir sem átt hafa í viðræðum; Framsókn, Vinstri-græn, Samfylking og Píratar, hefðu getað myndað 32 þingmanna meirihluta, sem er minnsti mögulegi meirihluti á þingi.

Formenn flokkanna hittust á fundi fyrir hádegi, þar sem ákvörðun var tekin um að slíta viðræðunum. Í kjölfarið greindu þeir þingflokkum sínum frá niðurstöðunni.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, formlegt umboð til stjórnarmyndunar síðastliðinn fimmtudag. Áður höfðu flokkarnir fjórir átt í óformlegum viðræðum sín á milli. Eftir þær þreifingar töldu flokkarnir að grundvöllur væri fyrir samstarfi á milli flokkanna. Nú virðist hins vegar útséð um það.

Katrín hefur greint forsetanum frá stöðu mála en hún er ennþá með stjórnarmyndunarumboðið og hyggst ekki skila því strax. Það liggur því fyrir að hún mun reyna að fá aðra flokka að borðinu til að mynda nýja ríkisstjórn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert