Agnes Bragadóttir Andri Steinn Hilmarsson
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hvatti í gær Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, til þess að hafa samband við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og kanna hug hans til hugsanlegrar þátttöku í stjórnarmyndunarviðræðum.
Þetta hefur Morgunblaðið eftir áreiðanlegum heimildum. Framsóknarflokkurinn sagði sig frá stjórnarmyndunarviðræðum um hádegisbil í gær. Helsta ástæðan var sá naumi þingmeirihluti sem ríkisstjórn VG, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata hefði haft, auk takmarkaðs trausts á Pírötum.
Katrín Jakobsdóttir skilaði umboði sínu til forsetans á Bessastöðum síðdegis í gær. Á blaðamannafundi eftir fund þeirra sagðist hún ekki hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, hún hefði enga möguleika útilokað. Sjálfstæðisflokkurinn og VG hafa samanlagt 27 þingmenn og vantar þá fimm þingmenn upp á að mynda meirihluta.
Þeir forystumenn sem Morgunblaðið ræddi við í gær sögðu miklar þreifingar í gangi, að „allir væru að tala við alla“.