Katrín hitti Sigmund Davíð í gær

Katrín hefur átt í samtölum við flesta formenn flokkanna síðustu …
Katrín hefur átt í samtölum við flesta formenn flokkanna síðustu daga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jak­obs­dótt­ir, formaður Vinstri grænna, hitti Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son, formann Miðflokks­ins, í gær­kvöldi. Frá þessu greindi hún í þætt­in­um Harma­geddon á X-inu í morg­un. Aðspurð sagði hún Sig­mund hafa verið mjög hress­an.

Katrín sagðist jafn­framt hafa átt sam­töl­um við for­menn flestra flokka frá því að hún skilaði stjórn­ar­mynd­un­ar­um­boðinu aft­ur til for­seta Íslands á mánu­dag, eft­ir að slitnaði upp úr stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum fjög­urra frá­far­andi stjórn­ar­and­stöðuflokka; Vinstri grænna, Fram­sókn­ar­flokks, Sam­fylk­ing­ar og Pírata.

Hún hefði verið í sam­bandi við Bjarna Bene­dikts­son, formann Sjálf­stæðis­flokks­ins, Sig­urð Inga Jó­hanns­son, formann Fram­sókn­ar­flokks­ins, Loga Ein­ars­son, formann Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, og Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur, formann Viðreisn­ar. Þá sagðist Katrín eiga fund með þeim tveim­ur síðast­nefndu á eft­ir.

„Þetta er ekki komið á þann stað, að mínu viti, að það sé neitt stjórn­ar­mynst­ur í kort­un­um,“ sagði hún um stöðuna eft­ir óform­leg­ar þreif­ing­ar síðustu daga.

Katrín sagði Sigmund hafa verið hressan þegar hún hitti hann …
Katrín sagði Sig­mund hafa verið hress­an þegar hún hitti hann í gær. mbl.is/​​Hari

Hún benti á að eng­in aug­ljós póli­tísk lína hefði legið fyr­ir eft­ir kosn­ing­ar, ekki frek­ar en í fyrra. Staðan núna sé þó frá­brugðin þeirri sem var uppi þá.

„Það sem hef­ur breyst frá því í fyrra er að all­ir flokk­ar átta sig bet­ur á því að þetta er staða þar sem þú get­ur ekki ætl­ast til þess að ná mál­efna­legri heild­stæðri stjórn um vinstri eða hægri, það er alla vega mjög flókið eins og þetta lít­ur út núna.“

Aðspurð í þætt­in­um hvort það væri ekki von­laust að fara í rík­is­stjórn með Sjálf­stæðis­flokki, hvort það yrði ekki sam­suða sem gerði ekki neitt, sagði Katrín: „Ég held að all­ir átti sig á því að það er eng­inn að fara að fá sín­ar ýtr­ustu kröf­ur fram í neinu því sam­starfi sem er uppi á borðum núna.“

Vilja í rík­is­stjórn svo fremi sem viðun­andi ár­ang­ur ná­ist

Mikið hef­ur verið talað um að í kort­un­um sé að Vinstri græn­ir, Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn og Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn reyni fyr­ir sér í næstu stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum, en Morg­un­blaðið greindi frá því í fyrra­dag að Sig­urður Ingi hefði hvatt Katrínu til að hafa sam­band við Bjarna eft­ir viðræðuslit­in á mánu­dag. Þá hef­ur mbl.is heim­ild­ir fyr­ir því að inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins þyki þetta sam­starf fýsi­leg­asti kost­ur­inn í stöðunni. Greint var frá því í Morg­un­blaðinu í dag, sam­kvæmt heim­ild­um, að Katrín geri kröfu um að fá for­sæt­is­ráðherra­stól­inn, ef verður af sam­starfi við Sjálf­stæðiflokk­inn.

Spurð hvort það yrði nokkuð vin­sælt í baklandi Vinstri grænna ef flokk­ur­inn færi rík­is­stjórn með Sjálf­stæðis­flokkn­um sagði Katrín: „Það eru mjög marg­ir sem vilja að VG fari í rík­is­stjórn. Ég hef sagt við mína fé­laga að ég vilji líka að við för­um í rík­is­stjórn, svo fremi að við náum ár­angri sem við telj­um viðun­andi og áhrif­um sem við telj­um viðun­andi.“ Katrín seg­ir að þess vegna hafi hún ekki úti­lokað sam­starf við neinn flokk fyr­ir kosn­ing­ar.

Katrín sagðist jafn­framt vilja leiða næstu rík­is­stjórn, og grínaðist í kjöl­farið með að henni sýnd­ist sem all­ir karl­ar á land­inu vildu gera það líka. „Að sjálf­sögðu erum við þar og ég hef talað fyr­ir því og ég hef nú bara fengið heil­mik­inn stuðning við þau sjón­ar­mið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert