Enginn formaður þeirra flokka sem sitja á þingi hefur verið í sambandi við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, frá því að viðræðum Vinstri grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Pírata var slitið á mánudag. Af því má leiða líkur að það fá Flokk fólksins að borðinu við myndun næstu ríkisstjórnar sé ekki valkostur sem er ofarlega í umræðunni núna.
Í raun hefur Inga ekki heyrt í neinum formannnanna síðan áðurnefndir fjórir flokkar hófu formlegar viðræður. „Ég hef ekki heyrt í neinum síðan Katrín fékk umboðið, en það var búið að spjalla við okkur svolítið fyrir þann tíma,“ segir Inga í samtali við mbl.is
„Við erum ekki í viðræðum við einn eða neinn, nema okkur sjálf. Við vorum auðvitað í skólanum í gær svo spjölluðum við þingflokkurinn lengi saman í okkar þingflokksherbergi. Við erum bara byrjuð að vinna á fullu og undirbúa starfið okkar. Við leyfum hinum bara að finna taktinn.“ Allir fjórir þingmenn flokksins eru nýir á þingi og sitja þeir því kynningu á störfum þingsins sem fór fram í gær og í dag.
Aðspurð hvort flokkurinn sé farinn að undirbúa sig til að starfa í stjórnarandstöðu segir Inga þingmennina undirbúa sig í takt við þá stöðu sem uppi er í dag.
Talið er líklegt að þeir flokkar sem setjist að borðinu næst og reyni að mynda ríkisstjórn, séu Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur. Komið hefur fram að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, geri kröfu um að fá forsætisráðherrastólinn í þeirri stjórn, en ljóst er að það hefur ekki hlotið mikinn hljómgrunn innan Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur verið rætt að það geti reynst erfitt fyrir Katrínu að réttlæta það fyrir grasrót Vinstri grænna að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokki. Einnig hefur verið talað um að Vinstri grænir vilji gjarnan fá Samfylkinguna inn í þá stjórn, en samkvæmt heimildum mbl.is er ekki er mikill áhugi á því, hvorki innan Samfylkingar sé Sjálfstæðisflokks. Ætli þessir þrír flokkar hins vegar að reyna að mynda stjórn má telja líklegt að þeir setjist að borðinu í hefji viðræður í dag eða á morgun.
Í ljósi þess að ekki hefur verið haft samband við Ingu má að minnsta kosti gera ráð fyrir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Miðflokks og Flokks fólksins, sé ekki á teikniborðinu. Hugmynd að slíkri stjórn hefur verið viðruð og samkvæmt heimildum mbl.is líta Sjálfstæðismenn á það sem valkost, skili samtal áðurnefndra þriggja flokka ekki árangri.
Kjarninn hefur hins vegar greint frá því, samkvæmt heimildum, að myndun slíkrar stjórnar sé einfaldlega hótun í þeim óformlegu þreifingum sem nú fara fram um hugsanlegar stjórnarmyndunarviðræður.
Þá liggur líka fyrir að persónulegar deilur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, gætu staðið slíkri stjórn fyrir þrifum. Þá sagði Sigurður í samtali við mbl.is að hann teldi þá stjórn ekki svara kalli um pólitískan stöðugleika og breiða skírskotun.
Inga kippir sér hins vegar lítið upp við þessar vangaveltur og segir Flokk fólksins einfaldlega ætla að bíða á kantinum. Flokkurinn er strax byrjaður að undirbúa þingstörfin þrátt fyrir að enn sé óljóst hvenær ný ríkisstjórn verði mynduð og nýtt þing sett. „Við erum að fá til okkar gesti í dag. Við erum að afla okkur aukinnar þekkingar og upplýsinga um málefni sem við viljum berjast fyrir.“
Inga gerir ráð fyrir að forsetinn kalli einhvern formannanna á sinn fund í dag og veiti formlegt umboð til stjórnarmyndunar „Það er í stöðunni að næst verði sennilega reynt við myndun stjórnar Sjálfstæðisflokk, VG og Framsókn. Það kemur bara í ljós. Þessir reynsluboltar sem fá umboðið eru með flotta reynslu.“