Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri-grænna, greinir frá því á facebooksíðu sinni að þingflokkurinn hafi samþykkt það á fundi í morgun að Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, einbeitti sér að samtölum við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Að hún kannaði hvað skildi á milli flokkanna og hvar væru snertifletir.
Það væri svo í höndum þingflokks Vinstri-grænna að meta hvort árangur umræddra samtala væri þess eðlis að hægt væri að fara dýpra ofan í það hvaða málefni væri hægt að ná saman um og hver ekki.
„Þetta eru ekki formlegar málefna- og samningaviðræður, heldur nákvæmari kortlagning en samtöl hingað til hafa náð fram. Enginn formanna er með umboð og því engin eðlisbreyting á umræðum milli forystufólksins - VG er að efna þá stefnu að útiloka engan fyrirfram eins og hreyfingin tilkynnti fyrir kosningar.“
Ari Trausti segir jafnframt að Samfylkingin hafi hafnað því að taka þátt í samtölum þessara flokka, líkt og Katrín hafði áður greint frá í samtali við mbl.is í morgun.
Hann segir að ef farið verði dýpra ofan í málefnin verði það væntanlega formlegar viðræður starfshópa þessara þriggja flokka sem nefndir hafa verið.