Fundi þingflokks Vinstri grænna í Alþingishúsinu var að ljúka. Samkvæmt heimildum mbl.is var á fundinum farið yfir þau samtöl sem hafa átt sér stað í tengslum við stjórnarmyndunarviðræður. Óformlegar viðræður á milli formanna Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks munu halda áfram í dag, en samtölin eru ekki komin á það stig enn þá að formlegar viðræður séu komnar á dagskrá.
Þá stendur nú yfir fundur þingflokks Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Bjarni Benediktsston, formaður flokksins, sagði í samtali við fréttamann Vísis rétt fyrir fundinn að viðræður flokkanna væru skammt á veg komnar og að á fundinum stæði til að ræða forsendur mögulegs ríkisstjórnarsamstarfs þessara þriggja flokka.
Fram hefur komið að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, geri kröfu um forsætisráðherrastól í þeirri ríkisstjórn, en hún hefur ítrekað sagt að hún vilji leiða næstu ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn styður þá hugmynd. Sjálfstæðisflokkurinn gerir hins vegar líka tilkall til forsætisráðuneytisins, enda flokkurinn sá stærsti á þingi. Nái flokkarnir saman á málefnalegum grundvelli og niðurstaðan verður sú að Katrín verður forsætisráðherra er ekki ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn fái aukið vægi ráðherra í ríkisstjórninni.