Flokkur fólksins til í vinstristjórn

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Golli

„Við Inga áttum gott samtal um brýn verkefni næstu ára. Við eigum bæði rætur í jafnaðarhugsjóninni og rennur til rifja fátækt, misskipting og veik almannaþjónusta,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag.

Logi vísar þar til fundar sem hann átti um helgina með Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins. Tilkynnir hann að flokkurinn sé opinn fyrir því að ræða stjórnarmyndun frá miðju til vinstri.

Bendir hann á að saman hefðu sex flokkar, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin, Píratar, Flokkur fólksins 40 þingmenn og 32 ef Framsókn yrði ekki með.

„Þetta væri óvenjulegt en ég er sannfærður um að það er rétta svarið til að koma hér á félagslegum og pólitískum stöðugleika.“ Bætir hann við að VG eigi nú leik. 

Sagði útlendingastefnu Flokks fólksins „glannalega“

Fjallað var um það í síðustu viku þegar viðræður fjögurra flokka voru í gangi að Framsóknarflokkurinn hefði viljað fá Flokk fólksins inn í þær viðræður en það hefðu vinstriflokkarnir ekki viljað vegna stefnu hans í útlendingamálum.

Logi var spurður að því um miðjan september hvort hann gæti hugsað sér að vinna með Flokki fólksins. Þar sagði hann Samfylkinguna eiga samleið með flokknum þegar kæmi að þeim sem minna mættu sín í samfélaginu.

Hins vegar væri stefna Flokks fólksins í málefnum flóttamanna og hælisleitenda, sem flokkurinn bauð fram í meginatriðum óbreytta fyrir kosningar, glannaleg. Forsenda samstarfs væri að horfið yrði frá þeirri stefnu hans.

„En mér finnst þau hafa talað dálítið glannalega um flóttamenn og hælisleitendur en við skulum bara sjá hvort það fari ekki bara að víkja af þeirra stefnuskrá.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert