Vinstri-græn eru í stórmerkum leiðangi að reyna að koma á sögulegum sáttum við Sjálfstæðisflokkinn. Takist sættir og myndi flokkarnir ríkisstjórn sem síðan heldur velli án mikilla innanflokksátaka mun það gjörbreyta landslagi íslenskra stjórnmála og stjórnarmyndunarviðræðum í framtíðinni. Þetta segir Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur í hugleiðingum um stjórnarmyndunarviðræður á facebooksíðu sinni.
Segir Baldur Framsóknarflokkinn hafa unnið fyrstu störukeppnina við VG um það hvort mynda ætti mið-vinstri-stjórn eða breiða stjórn frá hægri til vinstri.
VG haldi hins vegar áfram að leggja mesta áherslu á aukin útgjöld til heilbrigðis- og menntamála og að mynda sterka ríkisstjórn. Flokkurinn hafi nokkrum sinnum látið brjóta á þessu í formlegum og óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum, sem og viðræðum um minnihlutastjórn síðastliðið ár. „Áhersla VG á samhenta og sterka stjórn gleymist oft í umræðunni þó að formaður flokksins leggi þunga áherslu á þetta. Líklegt má telja að grimm innanflokksátök flokksins meðan á stjórnarsamstarfinu við Samfylkinguna stóð skýri þetta en þau gerðu stjórnina nær óstarfhæfa.“
Segir Baldur Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, ekki hrædda við að mynda ríkisstjórn, heldur hafi hún einfaldlega ekki náð ofangreindu fram í stjórnarmyndunarviðræðum. Þingflokkurinn sé mun samhentari í dag en hann var á árunum 2009-2013.
„Formaður Sjálfstæðisflokksins verður frekar í kattasmölun innan sinna vébanda en formaður VG ef flokkarnir mynda stjórn,“ segir Baldur.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hafi tekið forystu á vinstri væng stjórnmálanna með því að bjóða VG upp á raunverulegan valkost að mynda mið-vinstri-stjórn með Flokki fólksins, Viðreisn og Pírötum. „Flokkarnir ættu að geta náð saman málefnalega en það verður flókið að stýra fimm flokka ríkisstjórn sem hefur eins þingsætis meirihluta.“ Þessi mið-vinstri-stjórn falli hins vegar á áherslunni sem VG leggi á sterka stjórn.
Þá segir Baldur það vera stórlega vanmetið í opinberri umræðu hversu erfitt það sé fyrir Framsóknarflokkinn og Miðflokkinn að vinna saman vegna ágreinings um málefni og vinnubrögð og deilna milli einstaklinga.
„Framsóknarflokkurinn er ekkert frekar í lykilstöðu en VG. Það vilja allir vinna með þessum tveimur flokkum. Allt bendir til þess að VG geti unnið bæði til hægri og vinstri.“
Miðflokkurinn sé hins vegar einangraður. „Flokkarnir, fyrir utan Flokk fólksins, vilja ekki vinna með honum nema í algjörri neyð. Þetta gerir samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Flokks fólksins og Miðflokksins mjög ólíklega eins og staðan er í dag.“
Flokkur fólksins geti hins vegar unnið bæði til vinstri og hægri.
Þá hafi Píratar, þrátt fyrir að hafa lagt sig fram við að koma til móts við aðra flokka til að mynda ríkisstjórn, ekki náð að sannfæra nógu marga um að þeir séu traustsins verðir.
„Þingræðið kveður á um það að flokkarnir ráði för við stjórnarmyndun þar til allt er komið í hnút – þá mun fyrst reyna á forseta Íslands.“