Fylgir sínum formanni

Steingrímur J. Sigfússon hefur lengstan starfsaldur þingmanna.
Steingrímur J. Sigfússon hefur lengstan starfsaldur þingmanna. Kristinn Ingvarsson

„Ég fylgi bara mínum formanni og þingflokksformanni þétt að málum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður og stofnandi Vinstri-grænna, aðspurður hvernig honum lítist á samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna.

Þingflokksfundi flokksins lauk nú á tíunda tímanum án nokkurrar niðurstöðu en fundað verður að nýju klukkan eitt á morgun og stefnt að því að taka ákvörðun þá um hvort haldið verður í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk. 

Steingrímur segir fundinn hafa gengið ágætlega. Hann gengst ekki við að mikill ágreiningur sé innan þingflokksins. „Við þurftum bara meiri tíma í þetta. Við fórum mjög rækilega yfir þetta og það tók langan tíma. Því var ákveðið að halda spjallinu áfram á morgun.“

Hvað á helst eftir að ræða?
„Það á bara eftir að fara yfir og meta þessa stöðu og hver verða næstu skref,“ segir Steingrímur. Hann vill ekki nefna nein sérstök málefni sem út af standa.

„Þau [Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi] komust yfir mjög mikið á þessum tveimur dögum og því var fundurinn heilmikil skýrslugjöf. Síðan ræddu menn auðvitað ýmis mál. Þetta er stór ákvörðun hvort farið verður í formlega viðræður eða ekki.“

Ertu bjartsýnn á það?
„Við skulum bara sjá til hver verður niðurstaðan á morgun.“

Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður VG mætir til fundar í Alþingshúsinu …
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður VG mætir til fundar í Alþingshúsinu fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann veit ekki hvort búast megi við viðlíka maraþonfundi á morgun en segir að mögulega gangi betur þegar allir verði á staðnum. Steingrímur sat fundinn ekki en var með gegnum síma. Hann er þó á leið í bæinn núna.

Aðspurður segist Steingrímur ekki telja útspil Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, og Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, hafa truflað þingflokkinn en þau hafa lýst því yfir að þau séu til í fimm eða sex flokka viðræður til vinstri. „Þetta er bara hans sóló. Ég veit ekki til þess að hann hafi rætt þetta við Katrínu eða Sigurð Inga eða neitt. Hann er bara með einhverjar aðgerðir í gangi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert