Líklega látið reyna á stjórnarmyndun

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Vinstri græn eru að mínu mati að spila eins vel og mögulegt er úr þeim spilum sem þau fengu á hendi í kosningunum. Það mun svo fljótlega koma í ljós hvað út úr því kemur. Ég treysti mínu fólki,“ segir Björn Valur Gíslason, fyrrverandi varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, á vefsíðu sinni í dag um óformlegar stjórnarmyndunarviðræður flokksins við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn sem staðið hafa yfir undanfarna tvo daga.

Frétt mbl.is: Svavar hvetur Katrínu til dáða

Björn Valur segir kjósendur ekki hafa boðið stjórnmálamönnum upp á marga góða valkosti til stjórnarmyndunar. Stjórnmálamenn í einstökum flokkum hafi síðan takmarkað þá valkosti enn frekar með vanhugsuðum yfirlýsingum og skilyrðum. Eftir standi enginn kostur sem sé bestur eða sjálfsagt val fyrir neinn af þeim átta flokkum sem fengið hafi fulltrúa kjörna á Alþingi. Þetta væri sú staðan sem þyrfti að vinna úr.

„Þrír flokkar hafa nú þegar myndað minnihluta á þingi. Það gerðu þeir áður en ljóst yrði hvort formlegar viðræður um myndun ríkisstjórnar hæfust. Það verður að skrifast á pólitískt reynsluleysi formanna þessara flokka,“ segir Björn Valur og vísar þar til Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar. Ekki liggi enn fyrir hvort viðræður VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leiði til formlegra viðræðna.

„Það verður þó að teljast líklegra en hitt að á það verði látið reyna í fullri alvöru, ekki síst þar sem aðrir kostir hafa verið útilokaðir, m.a. með myndun minnihlutans í gær. Það er erfitt að sjá hvernig þeir sem það gerðu ætla að bakka út úr því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert