Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar sakar Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um að hugsa um það fyrst og fremst að verða forsætisráðherra og tryggja sér sem flesta ráðherrastóla í óformlegum viðræðum VG um mögulegt stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
Össur Skarphéðinsson segir á facebooksíðu sinni í morgun að í samstarfi til vinstri gæti VG náð meiru fram af stefnumálum sínum. „Hjá VG virðast hins vegar öll prinsipp komin á brunaútsölu. Leiðangur Katrínar virðist ganga út á tvennt: Annars vegar að tryggja sjálfri sér forsætisráðherraembætti og hins vegar sem flesta ráðherrastóla fyrir þingmenn flokksins. Málefnin koma í þriðja sæti – enda aldrei á þau minnst nema til skrauts.“
Þetta segir Össur skýra að þingmenn VG skuli ekki hafa risið upp þegar Katrín hafi hafnað því að reyna aftur að mynda ríkisstjórn til vinstri fyrir helgi. Spyr hann hvar til dæmis þingmennirnir Kolbeinn Óttarsson Proppé og Rósa Björk Brynjólfsdóttir séu og hvort vonarglýjan um ráðherrastólana blindi þau.
„Það er þetta sem gerir stjórnmál líðandi dags merkingarlaus og án innihalds. Það er út af þessu sem traustið minnkar á Alþingi. Hrossakaup af þessu tagi eru partur af siðrofi stjórnmálanna.“