„Þetta hefur gengið bara ágætlega,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun spurður um ganginn í óformlegum viðræðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um myndun mögulegrar ríkisstjórnar.
Sigurður sagði að unnið hefði verið að því að kortleggja stóru málin og þar vægi hvað þyngst að hans mati þær kjaraviðræður sem fram undan væru. Mikilvægt væri að öflug ríkisstjórn væri í landinu til þess að geta tekið á þeim málum. Fyrir lægi að ríkið þyrfti að koma að þeim málum með einhverjum hætti. Unnið hafi verið að því að kortleggja það.
Sigurður sagði að það þyrfti að koma á pólitískum stöðugleika. Skortur á honum hefði verið eitt af vandamálum Íslands á undanförnum árum. Fyrir vikið hefðu Framsóknarmenn talað fyrir breiðri stjórn frá vinstri, yfir miðjuna og til hægri. Einnig þyrfti að tryggja félagslegan stöðugleika þegar kæmi til dæmis að réttindum á vinnumarkaði.
Dagurinn fari hjá flokkunum tveimur í að ræða við baklandið sitt. „Mér fannst þessar viðræður okkar, samtal, síðustu tvo daga hafa gengið mjög vel,“ sagði Sigurður Ingi. Spurður hvort viðræðurnar nú hafi gengið betur en viðræður fjögurra flokka eftir kosningar sagði hann þessar viðræður öðruvísi enda kúltúrinn í flokkunum mismunandi.
Sagðist hann telja að þær aðstæður í samfélaginu kalli á stjórn sem geti farið í þau verkefni sem þurfi að taka á. Þar á meðal kjaraviðræður og uppbyggingu í samfélaginu. Sá hópur sem tæki þátt í viðræðunum væri sammála um það. Sigurður sagðist telja aðspurður að staðan gæti orðið mjög erfið ef núverandi viðræður lentu uppi á skeri.