„Fundurinn gekk mjög vel. Ég fór yfir það með þingflokknum hvernig samtalið yfir helgina hefði gengið fyrir sig og hvaða mál höfðu helst verið rædd. Það var gerður ágætisrómur að því og ég bíð eftir því að heyra aftur frá hinum formönnunum síðar í dag,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að loknum þingflokksfundi.
Fundurinn var haldinn í Valhöll og stóð yfir í um eina og hálfa klukkustund.
Er samstaða hjá flokknum um að fara í formlegar viðræður við VG og Framsóknarflokkinn?
„Það er ágætissamstaða um það en auðvitað er það allt með fyrirvara um að málefnalega sé heildarniðurstaðan ásættanleg. Ég held að það sé sami fyrirvari og hinir flokkarnir gera.“