Ung vinstri græn, ungliðahreyfing Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, eru eindregið mótfallin því að Vinstri grænt gangi inn í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Þetta kemur fram í ályktun sem samtökin birta á Facebook-síðu sinni nú í kvöld.
„Ung vinstri græn munu ávallt fordæma gjörðir sem eru þvert á stefnu Vinstri grænna og í andstöðu við grasrótina,“ segir í ályktuninni. „Ung vinstri græn setja sig því eindregið á móti því að Vinstri græn gangi inn í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Við getum ekki samþykkt síendurteknar lygar, spillingu og frændhygli. Við getum ekki samþykkt leyndarhyggju með kynferðisbrotamönnum. Gjörðir vega þyngra en orð og við í Vinstri grænum þurfum að sýna í verki hvað við stöndum fyrir með því að neita því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Slíkt ríkisstjórnarsamstarf er ekki rétta leiðin til þess að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar.“
Biðlar ungliðahreyfingin því næst til þingflokks VG að „sýna ábyrgð til framtíðar með því að fara ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og láta reyna á stjórnarmyndum með öllum öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, þar sem ríkisstjórnarsamstarf með spilltum flokkum mun rýra trúverðugleika hreyfingarinnar“.
Segir hreyfingin þetta vera mikilvægan lið í því að Vinstri græn verði sterkt afl til framtíðar og „til þess að geta staðið að langtímaúrbótum í samfélaginu. Til þess að svo geti orðið verðum við að taka skýra afstöðu gegn samstarfi við flokka þar sem spilling og leyndarhyggja hefur grasserað.“