„Mér fannst bara ekki vera nógu margt fast í hendi eftir þessar óformlegu viðræður til að ég treysti mér til að styðja áframhaldandi formlegar viðræður. Það er stórt skref að fara inn í þær,“ segir Andrés Ingi Jónsson, annar þingmanna Vinstri grænna sem greiddu atkvæði gegn því að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk á fundi þingflokksins í dag. Rósa Björk Brynjólfsdóttir greiddi einnig atkvæði gegn því að fara í viðræðurnar.
„Ég hefði viljað sjá ákveðin atriði koma skýrar út úr þessum óformlegu viðræðum til þess að vera sannfærður um að viðmælendurnir væru að fara að skila okkur málefnasamningi sem væri ásættanlegur,“ bætir Andrés við.
Hefurðu þá ekki trú á að því að sá málefnasamningur sem geti komið út úr viðræðunum verði ásættanlegur fyrir Vinstri græna?
„Ég treysti forystufólki VG í þessum viðræðum til að skila því besta sem hægt er að ná og tek afstöðu til þeirrar niðurstöðu þegar hún liggur fyrir.“
Andrés segist ekki hafa verið með óskalista yfir þau atriði sem þyrftu að vera skýrari svo hann hefði talið rétt að fara út í viðræður Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk. „Það hefðu þurft að vera nokkur skýr flögg sem hefði verið hægt að reisa, sem hefði sýnt skýra forystu Vinstri grænna í þessum viðræðum. Mér fannst vanta að Sjálfstæðisflokkurinn gæfi það nógu vel til kynna. Nú sjáum við bara til hvað gerist næstu daga, hvort ég hafi verið of svartsýnn.“
Rósa Björk sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hún bæri ekki traust til Sjálfstæðisflokksins og því gæti hún ekki stutt viðræðurnar. Andrés er á sama máli og Rósa í þeim efnum. „Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn þurfa að vinna traust, ekki bara hjá Vinstri grænum, heldur þjóðinni til að komast inn í ríkisstjórn,“ segir Andrés, en skortur á trausti hafði einnig áhrif á ákvörðun hans.
Aðspurður segist hann ekki ætla að biðjast undan þeim verkefnum sem honum verði falin í viðræðum, verði þau einhver. Hann telur þó að aðrir í þingflokknum, en þeir sem greiddu atkvæði gegn viðræðunum, séu betur til þess fallnir að sinna verkefnunum.