Aron Þórður Albertsson
Engin niðurstaða náðist á þingflokksfundi Vinstri grænna í gærkvöldi um hvort halda eigi í formlegar viðræður við Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk um mögulegt stjórnarsamstarf. Fundi verður framhaldið klukkan 13 í dag en þetta varð ljóst á níunda tímanum í gærkvöldi eftir um 5 klukkustunda fundarhöld.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ríkir mikil óeining innan VG um hvort halda skuli í formlegar viðræður við flokkana tvo en hluti þingflokksins er því afar andsnúinn.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir ýmsar ástæður geta legið þar að baki en hún telji að flokkurinn eigi að láta reyna á formlegar viðræður enda séu líkur á að flokkurinn geti náð góðri niðurstöðu. „Ég tel að það sé hægt að ná góðum málefnasamningi en það er auðvitað ekkert í hendi,“ segir Katrín sem telur að ekki sé hægt að taka afstöðu fyrr en búið sé að láta reyna á viðræðurnar. „Fyrir mitt leyti er ekki hægt að vera andsnúinn fyrr en við erum komin með eitthvað í hendurnar, það er mín afstaða bara almennt,“ segir Katrín í Morgunblaðinu í dag.