Agnes Bragadóttir
Ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur verða ellefu talsins, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Fimm ráðherrastólar koma í hlut Sjálfstæðisflokksins, þrír í hlut VG og þrír ráðherrastólar koma í hlut Framsóknarflokksins.
Málefnavinna og viðræður formanna flokkanna þriggja gengu vel í gær, að því er fram kemur í umfjöllun um stjórnarmyndunarviðræðurnar í Morgunblaðinu í dag. Vonast er eftir því að gerð málefnasamnings ljúki í síðasta lagi á mánudag.
Meðal þess sem þau Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson ræddu í gær og fyrradag var hvaða ráðuneyti kæmu í hlut hvers flokks, án þess að þeirri umræðu hefði lokið með endanlegri niðurstöðu. Gengið væri út frá því að VG fái forsætisráðuneytið og að fjármála- og efnahagsráðuneytið yrði í höndum Sjálfstæðisflokks, svo og utanríkisráðuneytið. Þá eru líkur á því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti verði á forræði Framsóknar.