„Þetta er verk sem tekur nokkra daga, kannski aðeins lengri tíma en við höfðum gert ráð fyrir en það hefur ekkert komið upp á sem veldur manni áhyggjum. Þetta er bara þannig að allir vilja vanda sig,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fyrir fund sinn með formönnum Vinstri grænna og Framsóknarflokksins í ráðherrabústaðnum í morgun.
Spurður út í stór, óútkljáð mál á milli þeirra sagði hann ekkert eitt koma upp í hugann. „Öll mál sem menn vilja setja í stjórnarsáttmála skipta máli. Við vonum bara að allir sýni því skilning að þetta þarf sinn tíma.“
Bjarni var einnig spurður hversu mikinn tíma hann sæi fyrir sér í viðræðurnar í viðbót. „Við ætluðum að vera komin lengra en þótt það fari vikan í þetta þá verður það bara að vera þannig.“
Hann sagði að formennirnir hefðu aðeins rætt mjög gróflega um skiptingu ráðuneyta og kvaðst ekki hafa komist að neinni niðurstöðu um hvort hann stefndi á að fara í fjármálaráðuneytið á nýjan leik. „Þetta er hluti af því sem við eigum eftir að útkljá,“ sagði og vildi ekki tjá sig um hvort það kæmi til greina að hann færi í annað ráðuneyti.
Bjarni sagði flokkana þrjá vera „ágætlega“ á sömu blaðsíðu. „Það vita allir að flokkarnir hafa ólíkar áherslur en ég hef talað um það í meira en ár að það séu sérstakar aðstæður uppi núna. Við erum að upplifa lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar og við verðum að taka höndum saman á vettvangi stjórnmálanna til þess að nýta þær einstöku aðstæður til þess að byggja upp landið og ná árangri við að sækja fram í átt að betri lífskjörum,“ sagði hann.
„Það má ekki gerast að órói á stjórnmálasviðinu verði til þess að tækifæri glatist hér í efnahagsmálum og fyrir landsmenn alla. Til þess að ná utan um þessa stöðu höfum við sest núna saman og ég hef mikla trú á að það geti skilað miklum árangri,“ bætti Bjarni við og kvaðst vera bjartsýnn á að þessi ríkisstjórn tæki við völdum.