Breið stjórn og uppbygging – kunnuglegt?

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn þeirra …
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn þeirra þriggja flokka sem nú ræða ríkisstjórnarmyndun. mbl.is/Árni Sæberg

Fari svo að ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins verði að veruleika eins og virðist stefna í verður um sögulegan atburð að ræða enda hafa Sjálfstæðisflokkurinn og flokkurinn lengst til vinstri á Alþingi ekki starfað saman í ríkisstjórn síðan í nýsköpunarstjórninni svonefndri sem var við völd á árunum 1944-1947.

Flokkarnir sem mynduðu nýsköpunarstjórnina voru Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkur Íslands og Alþýðuflokkurinn. Ýmislegt í tengslum við hana er kunnuglegt. Stjórnmálaflokkunum hafði þannig ekki tekist að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningar 1942 og fyrir vikið ákvað Sveinn Björnsson, ríkisstjóri og síðar forseti Íslands, að skipa einu utanþingsstjórn Íslandssögunnar.

Skipun utanþingsstjórnarinnar var eitur í beinum stjórnmálaflokkanna og ekki síður að hún skyldi vera við völd þegar lýðveldið var stofnað 17. júní 1944. Fjórir flokkar fengu þingmenn kjörna á Alþingi í kosningunum haustið 1942. Þeir þrír sem síðar mynduðu nýsköpunarstjórnina og Framsóknarflokkurinn. Flokkurinn hafnaði hins vegar samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Útilokuðu samstarf við Sjálfstæðisflokkinn

Forsaga þessa er svonefnt Eiðrofsmál árið 1942 sem snerist um breytingar á kjördæmaskipan í óþökk Framsóknarflokksins. Fyrra fyrirkomulag kom sér vel fyrir flokkinn enda fól það í sér að vægi atkvæða til sveita, þar sem flokkurinn hafði mikið fylgi, var meira en í þéttbýli vegna þess að fólk hafði í vaxandi mæli í gegnum tíðina flutt á mölina eins og það var gjarnan kallað.

Framsóknarmenn töldu Sjálfstæðismenn hafa brotið samkomulag um að kjördæmabreytingar yrðu ekki á dagskrá næstu árin. Þeir síðarnefndu töldu sig aðeins hafa heitið því að hafa ekki frumkvæði að slíkum breytingum en hefðu hins vegar fullt frelsi til að styðja þingmál frá öðrum þess efnis í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins sem varð síðan niðurstaðan.

Nýsköpunarstjórnin 1944-1947.
Nýsköpunarstjórnin 1944-1947. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Eiðrofsmálið varð þess valdandi að Framsóknarmenn gátu ekki hugsað sér að starfa í ríkisstjórn með Ólafi Thors, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem þýddi að talið var nauðsynlegt að mynda stjórn með Sósíalistaflokknum sem fram að því hafði ekki átt aðild að ríkisstjórn. Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins studdu hana hins vegar ekki.

Höfuðáherslan á brýna innviðauppbyggingu

Meðal þess sem hefur einmitt verið nokkuð áberandi í tengslum við tilraunir til stjórnarmyndunar bæði nú og fyrir ári er að sumir stjórnmálaflokkar hafa útilokað samstarf við aðra flokka sem ekki hefur gert það verkefni auðveldara að mynda starfshæfa stjórn. Þannig hafa bæði Píratar og Samfylkingin til að mynda útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Þess má geta að þegar rætt er um samstarf Sjálfstæðisflokksins við sósíalista er stundum minnst á ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980-1983. Hins vegar kom Sjálfstæðisflokkurinn ekki að stjórninni. Gunnar var varaformaður Sjálfstæðisflokksins og myndaði ríkisstjórnina í óþökk hans ásamt nokkrum þingmönnum flokksins í samstarfi við Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkinn.

Markmið nýsköpunarstjórnarinnar var einkum að nýta miklar gjaldeyristekjur sem orðið höfðu til á stríðsárunum til þess að endurnýja atvinnutæki landsmanna. Einkum í sjávarútvegi og landbúnaði. Með öðrum orðum vinna að nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Talið var mikilvægt að taka höndum saman sem aldrei fyrr og nýta þessa fjármuni í þágu íslensku þjóðarinnar.

Mikilvægt að mynda breiða og sterka stjórn

„Að þessari stjórn standa menn sem hafa í grundvallaratriðum sundurleitar skoðanir á því hvaða þjóðskipulag henti Íslendingum best. Þeir hafa nú komið sér saman um að láta ekki þann ágreining aftra sér frá að taka höndum saman um þá hagsmuni atvinnulífs og þjóðarinnar sem ég nú hef lýst og eru kjarni málefnasamningsins,“ sagði Ólafur Thors í ræðu á Alþingi 1944.

Ólafur Thors var formaður Sjálfstæðisflokksins og Einar Olgeirsson var formaður …
Ólafur Thors var formaður Sjálfstæðisflokksins og Einar Olgeirsson var formaður Sósíalistaflokks Íslands. Ljósmynd/Alþingi

Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins, talaði á svipuðum nótum. Forsenda þess að nýta mætti fjármunina sem best í þágu þjóðarinnar væri að samstaða næðist á milli fulltrúa höfuðstétta landsins, verkalýðs, bænda og atvinnurekenda, og myndun sterkrar stjórnar. Með öðrum orðum stjórn með breiða pólitíska skírskotun eins og talað hefur verið um að undanförnu.

Einar taldi Íslendinga standa frammi fyrir einstöku tækifæri sem alls ekki mætti glopra niður eins og hann orðaði það í svonefndri nýsköpunarræðu í september 1944. Þá yrði lítið um uppbyggingu í þágu þjóðarinnar og fjármununum þess í stað eytt í neyslu. „Og glæsilegasta tækifæri sem Ísland hefur haft til að verða atvinnulega sjálfstætt og velmegandi þjóðfélag væri glatað.“

Banabitinn deilur um veru Bandaríkjahers

Sá efnahagsuppgangur sem átti sér stað á Íslandi á stríðsárunum, sem ekki síst kom til vegna þess að fjöldi fólks fékk vinnu hjá breska og síðan bandaríska hernum og að útflutningur á sjávarfangi einkum til Bretlands jókst mjög, kom í kjölfar kreppunnar sem geisaði á fjórða áratug síðustu aldar. Minnir það óneitanlega nokkuð á stöðu mála hér á landi á undanförnum árum.

Vafalaust hefur það hjálpað við myndun nýsköpunarstjórnarinnar að þegar hún var sett á laggirnar var seinni heimsstyrjöldin enn í algleymingi og Sovétríkin bandamenn vesturveldanna í baráttunni gegn þýskum nasistum. Áður en Þjóðverjar réðust inn í Sovétríkin 1941 höfðu íslenskir sósíalistar beitt sér mjög gegn veru herliðs bandamanna í landinu sem breyttist við innrásina.

Deilur um veru bandarísks hers á Íslandi eftir stríð urðu hins vegar að lokum til þess að upp úr nýsköpunarstjórninni slitnaði í október 1946 (sat fram á árið 1947) en kalda stríðið var þá í uppsiglingu samhliða versnandi samskiptum á milli Sovétríkjanna og vesturveldanna. Þó að deila megi um árangur stjórnarinnar er ljóst að hún lagði ákveðinn grunn að bættum lífskjörum á Íslandi til framtíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert