Formennirnir funda áfram í dag

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/​Hari

Fundað er áfram í dag í viðræðum Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um fyrirhugað ríkisstjórnarsamstarf flokkanna. Fundurinn hófst klukkan 10 í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu.

Forystumenn flokkanna, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hafa fundað um mögulegt stjórnarsamstarf undanfarna daga í formlegum viðræðum en áður fóru fram óformlegar viðræður þeirra. 

Formennirnir hafa sagt að viðræðurnar hafi gengið vel og ekkert hafi komið upp á sem valdi áhyggjum. Viðræðurnar hafi þó tekið eitthvað lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir en ástæða þess sé fyrst og fremst sú að lögð sé áhersla á vönduð vinnubrögð.

Unnið hefur verið að því að semja stjórnarsáttmála fyrirhugaðrar ríkisstjórnar og mun sú vinna vera langt komin. Eitthvað hefur verið rætt um skiptingu ráðuneyta en sú umræða er sögð að mestu eftir þar sem málefnavinnan gangi fyrir.

Búist er við því að Katrín verði forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar. Ekki liggur fyrir hvenær viðræðum kann að ljúka en stefnt hefur verið að því að ljúka vinnunni fyrir helgi. Hugsanlegt er þó að það taki einhverja daga í viðbót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert