„Hvenær missir forsetinn þolinmæðina?“

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, veltir því fyrir sér á Facebook-síðu sinni í dag hvers vegna fulltrúar flokkanna sem hafa tekið þátt í báðum stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar gefi sér mun lengri tíma núna en þegar stjórnarandstöðuflokkarnir fengu umboðið.

„Það er gott ef menn gefa sér tíma en mér fannst liggja meira á í fyrri umræðunum,“ segir Logi í samtali við mbl.is.

„Núverandi stjórnarmyndunarviðræður hafa staðið yfir í tæpar þrjár vikur, án formlegs umboðs frá forseta og enn virðist ekki sjást til lands. Fulltrúar þeirra flokka sem að þeim standa segja að enn séu stór ágreiningsmál óleyst og fólk verði bara að gefa sér rýmri tíma,“ skrifar Logi og spyr hvenær forsetinn missi þolinmæðina í þessari lotu.

Fyrri viðræðum slitið eftir þrjá daga

Hann segir að í viðræðum stjórnarandstöðunnar, þar sem Katrín hafði formlegt umboð forseta, hafi sömu fulltrúar annars vegar fundið að því að flokkarnir væru svo viljugir til sátta að þeir treystu sér ekki til að starfa með þeim.

Hins vegar að forsetinn væri svo óþolinmóður að það yrði að klára þetta á sem stystum tíma. Formlegum viðræðum var þá slitið eftir þrjá daga,“ skrifar Logi en honum hefði þótt réttara að reyna stjórn frá miðju og til vinstri og gefa Sjálfstæðisflokknum frí frá ríkisstjórn.

„Þá fannst mér hlutirnir liggja þannig að auðvelt væri að mynda stjórn en það vakti áhyggjur og óöryggi hjá fólkinu sem dreif sig í erfiða ferðalagið,“ segir Logi í samtali við blaðamann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert