Buðu upp á tvo valkosti

Frá fundi formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi.
Frá fundi formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi. mbl.is/​Hari

„Við settum tvo valkosti á borðið fyrir stjórnarandstöðuna. Annars vegar að leggja fram gamla fjárlagafrumvarpið með breytingatillögu og nýjum formála sem myndi sýna pólitískar áherslur nýrrar ríkisstjórnar eða nýtt frumvarp frá grunni,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is.

Fyrri kosturinn hafi verið lagður til í þeim tilgangi að koma til móts við stjórnarandstöðuna þar sem hann þýddi að hún hefði lengri tíma til þess að ræða frumvarpið á Alþingi. Hinn kosturinn þýddi hins vegar að fara yrði í þá vinnu að semja nýtt frumvarp sem þýddi að ekki yrði hægt að kalla þing saman fyrr en um miðjan desember og minni tími yrði til að afgreiða það.

Katrín segir að það hafi hins vegar verið eindregin ósk stjórnarandstöðunnar að síðari kosturinn yrði fyrir valinu og að skemmri tími yrði til þess að fjalla um fjárlagafrumvarpið á Alþingi. „Þannig að það varð niðurstaðan.“ Spurð um þingflokksfund VG í dag þar sem Katrín kynnti fyrirhugaðan stjórnarsáttmála segir hún fundinn hafa verið góðan.

Ekki voru greidd atkvæði um málið en flokksráð mun hins vegar greiða atkvæði um stjórnarsáttmálann á miðvikudaginn. Ríkisstjórnarþátttaka verður síðan borin undir atkvæðagreiðslu í þingflokknum í framhaldinu liggi samþykki flokksráðs fyrir. Formenn verðandi ríkisstjórnarflokka funda síðdegis og í kvöld þar sem gengið verður frá síðustu endunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert